„Mér finnst oft gott að vita ekki mikið um andstæðinginn, liðið og leikmennina. Þú getur maður meira einbeitt sér að eigin leik og tekið þær stöður sem koma upp í leiknum. Ég held að geti orðið spennandi og skemmtilegur leikur sem verður fínn undirbúningur fyrir okkur áður en við mætum Nígeríu á HM,“ sagði landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvellinum í dag.
„Það var örugglega hugsunin að mæta Gana sem undirbúningsleikur fyrir leikinn á móti Nígeríu. Ég held að þetta séu svipuð lið þar sem leikmennirnir eru fljótir og tæknilega góðir. Þetta verður frábær undirbúningsleikur,“ sagði miðvörðurinn í samtali við mbl.is.
„Við viljum vinna alla leiki en einhverra hluta vegna þá eigum við erfiðara með það í vináttuleikjunum. Það var margt gott í leiknum á móti Norðmönnum en við fengum á okkur þrjú mörk sem er ekki nógu gott. Þótt við höfum tapað þá tökum við fullt af jákvæðum hlutum með okkur í næstu leiki.“
Það eru 11 dagar í fyrsta leik Íslendinga á HM en þann 16. júní mætir íslenska liðið ógnarsterku liði Argentínu í Moskvu.
„Það eru allir að spyrja mann hvort maður sé ekki orðinn spenntur. Ég hef ekki fundið fyrir spenningi fyrr en nú. Þetta er að verða svolítið raunverulegt núna,“ sagði Ragnar, sem er öllum hnútum kunnugur í Rússlandi. Hann lék með Krasnodar frá 2014-16 og spilar nú með Rostov en Ísland mætir Króatíu í lokaumferð riðlakeppninnar á Rostov Arena þann 26. júní.
„Það er alveg pottþétt að þetta verður ógeðslega flott í kringum leikina og allt það. Hvort það gott fyrir stuðningsmenn er ég ekkert hundrað prósent viss um. En umgjörðin verður flott hjá Rússunum og þetta verður mikil sýning,“ sagði Ragnar.