Hafði ekki trú á mér

Emil Hallfreðsson
Emil Hallfreðsson Haraldur Jónasson/Hari

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson segist aldrei hafa óttast að komast ekki í HM-hópinn þótt hann hafi mátt sætta sig við að sitja mikið á bekknum hjá ítalska liðinu Udinese á nýliðnu tímabili.

„Við erum búnir að vera með sama liðið undanfarin ár og það er aldrei spurning með þennan hóp hvort sem menn spila lítið eða mikið með sínum félagsliðum,“ segir Emil í viðtali við ítalska blaðið Gazzetta dello Sport.

Emil lék 19 af 38 leikjum Udinese í deildinni og var aðeins átta sinnum í byrjunarliðinu.

„Massimo Oddo hafði ekki trú á mér,“ segir Emil. Oddo tók við þjálfun Udinese í nóvember á síðasta ári en var rekinn frá störfum í lok apríl en þá hafði liðið tapað 11 leikjum í röð.

„Ég var alltaf tilbúinn og ég fékk svo tækifæri undir stjórn Igor Tudor. Hann er góður karakter og er með góðar hugmyndir. Ég vona að hann haldi áfram,“ segir Emil en Udinese endaði í 15. sæti eftir deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert