Ef ég væri enn að grenja væri ég ekki hér

Frederik Schram ræðir við blaðamann fyrir æfingu í Rússlandi í …
Frederik Schram ræðir við blaðamann fyrir æfingu í Rússlandi í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég bý mig undir alla leiki með það í huga að ég sé að fara að spila,“ segir Frederik Schram, einn þriggja markvarða íslenska knattspyrnulandsliðsins á HM í Rússlandi.

Frederik ræddi við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í dag en þetta er þriðji æfingadagur liðsins eftir að það kom til Kabardinka á laugardagskvöld. Þessi 23 ára gamli, tveggja metra markvörður tekur undir að hann sé enn að átta sig á því að hann sé mættur á heimsmeistaramót:

„Þegar við fórum frá Keflavík þá kom tilfinningin fyrir alvöru. Það var frábært að sjá allt fólkið og hvernig við vorum kvaddir. Stemningin er frábær hjá okkur hér í bænum og allt í kringum okkur. En þegar við spilum fyrsta leikinn og sjáum stuðningsmennina sem hafa ákveðið að fylgja okkur þá fyrst held ég að það hellist alveg yfir mann að þetta sé farið af stað,“ segir Frederik.

Þegar hann segir eitthvað þá hlustum við

Ljóst er að Hannes Þór Halldórsson mun standa í marki Íslands gegn Argentínu á laugardag nema að eitthvað óvænt komi upp á. Frederik er meðvitaður um það en segist samt ímynda sér að hann sé að fara að spila:

„Auðvitað. Ég bý mig undir alla leiki með það í huga að ég sé að fara að spila. Það getur allt gerst í fótbolta. Ég hef reynt að vera tilbúinn á bekknum til að koma inn á allan tímann. Ég verð alltaf klár í slaginn ef að Hannes meiðist eða eitthvað slíkt, og þjálfararnir vita það,“ segir Frederik, en markverðirnir þrír vinna náið saman. Frederik tekur þó ekki undir að Hannes sé einvers konar föðurímynd þeirra Rúnars Alex Rúnarssonar, sem báðir eru ungir.

„Við vitum öll hvað Hannes hefur gert, hann er frábær markvörður og hefur átt stóran þátt í velgengninni á EM og í undankeppninni fyrir HM. Við vitum hvað hann getur og þegar hann segir eitthvað þá hlustum við auðvitað, því við getum lært af því. Ég er bara mjög ánægður með að geta verið með honum í þessum hópi,“ segir Frederik.

Betri markverðir en ég gert stærri mistök

Frederik fékk nokkuð óvænt tækifæri í næstsíðasta leik Íslands fyrir HM, gegn Noregi á Laugardalsvelli, en gerði ein afar slæm mistök sem kostuðu mark í 3:2-tapi. Hann segir það ekki hafa truflað sig lengi:

„Nei, ég hristi það af mér strax daginn eftir. Ég svaf ekkert vel eftir þetta, enda er ekkert gaman að gera svona mistök í fyrsta leik sínum fyrir A-landsliðið á Laugardalsvelli. Þá vill maður auðvitað sýna sínar bestu hliðar. En svona er líf markvarðarins og mikilvægast er hvernig maður tekst á við þetta. Ef ég væri ennþá alltaf grenjandi þegar ég væri að sofna á kvöldin þá væri ég ekkert hérna. Það hafa betri markverðir en ég gert stærri mistök en ég. Þetta er bara hluti af leiknum. Ég hef lagt hart að mér á æfingum síðustu daga og það er mikilvægast.“

Mjög þægilegt að vera með þessum strákum

Frederik er fæddur og uppalinn í Danmörku en á íslenska móður og hefur spilað fyrir öll yngri landslið Íslands, og nú fjóra leiki fyrir A-landsliðið. Hann talar ágæta íslensku en orðaforðinn er ekki nægur til að hann sé ólmur í að spjalla á tungumálinu. Það veldur þó ekki neinni útskúfun af hálfu liðsfélaga hans í landsliðinu:

„Það er alltaf eitthvað sem maður skilur ekki alveg því strákarnir tala nokkuð hratt, en ég skil alltaf meira og meira. Strákarnir eru mjög vinalegir og þægilegt að tala við þá, og þá skiptir ekki máli hve lengi þeir hafa verið í liðinu. Það er mjög þægilegt að vera með þeim og gott að læra af þeim eftir allt sem þeir hafa upplifað. Þetta er allt eins og maður hefði óskað sér,“ segir Frederik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert