Heimamenn í Rússlandi fóru vel af stað á HM í fótbolta sem hófst þar í landi í dag. Rússland vann þá öruggan 5:0-sigur á Sádi-Arabíu á Luzhniki-vellinum í Moskvu í upphafsleik keppninnar. Rússar bættu 68 ára gamalt met varðandi stærsta sigur í upphafsleik HM, en Brasilía vann Mexíkó 4:0 í Úrúgvæ árið 1950.
Juri Gazinskij kom Rússum yfir á 12. mínútu með skallamarki af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Aleksandr Golovin. Alan Dzagoev fór meiddur af velli skömmu síðar, en hann virtist hafa tognað aftan í læri.
Það reyndist lán í óláni fyrir Rússana því Denis Tsjerishev kom inn á fyrir hann og skoraði tveimur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Hann lék þá skemmtilega á varnarmann og skoraði með góðu skoti upp í hornið og var staðan 2:0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var rólegur framan af, en Rússarnir líklegri til að bæta við en slakt lið Sádi-Arabíu að minnka muninn. Á 70. mínútu kom Artem Dzjuba inn á sem varamaður og aðeins mínútu síðar var hann búinn að skalla knöttinn í markið eftir fyrirgjöf Aleksandr Golovin, sem lagði upp sitt annað mark.
Rússarnir voru ekki hættir því Denis Tsjerishev skoraði sitt annað mark í uppbótartíma er hann kláraði með glæsibrag, utanfótar upp í samskeytin. Fimmta markið kom á fjórðu mínútu uppbótartímans er Aleksandr Golovin kórónaði glæsilegan leik sinn með marki beint úr aukaspyrnu og þar við sat.