Heimamenn slógu met í upphafsleiknum

Heimamenn í Rússlandi fóru vel af stað á HM í fótbolta sem hófst þar í landi í dag. Rússland vann þá öruggan 5:0-sigur á Sádi-Arabíu á Luzhniki-vellinum í Moskvu í upphafsleik keppninnar. Rússar bættu 68 ára gamalt met varðandi stærsta sigur í upphafsleik HM, en Brasilía vann Mexíkó 4:0 í Úrúgvæ árið 1950.

Juri Gazinskij kom Rússum yfir á 12. mínútu með skallamarki af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Aleksandr Golovin. Alan Dzagoev fór meiddur af velli skömmu síðar, en hann virtist hafa tognað aftan í læri. 

Það reyndist lán í óláni fyrir Rússana því Denis Tsjerishev kom inn á fyrir hann og skoraði tveimur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Hann lék þá skemmtilega á varnarmann og skoraði með góðu skoti upp í hornið og var staðan 2:0 í hálfleik. 

Seinni hálfleikur var rólegur framan af, en Rússarnir líklegri til að bæta við en slakt lið Sádi-Arabíu að minnka muninn. Á 70. mínútu kom Artem Dzjuba inn á sem varamaður og aðeins mínútu síðar var hann búinn að skalla knöttinn í markið eftir fyrirgjöf Aleksandr Golovin, sem lagði upp sitt annað mark. 

Rússarnir voru ekki hættir því Denis Tsjerishev skoraði sitt annað mark í uppbótartíma er hann kláraði með glæsibrag, utanfótar upp í samskeytin. Fimmta markið kom á fjórðu mínútu uppbótartímans er Aleksandr Golovin kórónaði glæsilegan leik sinn með marki beint úr aukaspyrnu og þar við sat. 

Þrír leikir fara fram á morgun. Sá fyrsti er á milli Egyptalands og Úrúgvæ kl. 12, síðan tekur við leikur Marokkó og Íran kl. 15 og síðast en ekki síst er stórleikur Portúgala og Spánverja kl. 18.  
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert