Ástæðan fyrir „fýlu“ Heimis

Heimir Hallgrímsson kátur í 1:1-jafnteflinu við Argentínu.
Heimir Hallgrímsson kátur í 1:1-jafnteflinu við Argentínu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þegar spennan er að byggjast upp þá eru það oft litlir hlutir sem verða til þess að pirra mann,“ segir Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, þegar hann útskýrði fyrir mbl.is hvers vegna hann fór í „fýlu“ í aðdraganda leiks Íslands við Argentínu.

Heimir nefndi í framhjáhlaupi, í lok blaðamannafundarins daginn fyrir leik, að hann hefði farið í fýlu og þá hefði til að mynda sýnt sig hve gott væri að hafa öflugt stuðningsnet í kringum sig. Heimir hafði þá verið að tala um aðstoðarþjálfarana, sjúkraþjálfarana og njósnarana sem tilheyra landsliðshópnum og hrósað þeim í hástert fyrir sína vinnu. En af hverju fór hann í fýlu?

„Þegar spennan er að byggjast upp þá eru það oft litlir hlutir sem verða til þess að pirra mann. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé allt á hreinu og allt undirbúið. Það var einhver skjávarpi sem klikkaði, og mér fannst það ekki vera viðeigandi í aðdraganda leiks á HM að landsliðið væri með bilaðan skjávarpa,“ sagði Heimir, en kaus nú ekki að draga neinn til ábyrgðar í málinu, í léttu spjalli við blaðamann:

„Þetta var ekkert vandamál eftir á, en þráðurinn er stuttur þegar það er mikið undir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert