Rúnar Alex genginn í raðir Dijon

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Alex Rúnarsson, einn af markvörðunum í íslenska landsliðshópnum sem leikur á HM í Rússlandi, er genginn í raðir franska 1. deildarliðsins Dijon að því er fram kemur á vef danska úrvalsdeildarliðsins Nordsjælland sem Rúnar Alex hefur spilað með undanfarin ár.

Samningur Rúnars Alex er til fjögurra ára en þessi 23 ára gamli markvörður hefur spila með Nordsjælland síðustu fjögur og hálft ár og hefur verið aðalmarkvörður liðsins undanfarin tvö tímabil. Dijon hafnaði í 11. sæti í frönsku 1. deildinni, efstu deildinni þar í landi, á síðustu leiktíð.

Rúnar Alex átti mjög gott tímabil með Nordsjælland á síðustu leiktíð þar sem hann lék alla 36 leiki liðsins í úrvalsdeildinni og var útnefndur mikilvægasti leikmaður liðsins í lok tímabilsins.

Rúnar á þrjá leiki að baki með A-landsliðinu og 17 leiki með U-21 ára landsliðinu.

„Minn tími hjá Nordsjælland hefur verið frábær frá fyrsta degi. Ég kem til með að sakna liðsins mjög mikið“, segir Rúnar Alex á vef Nordsjælland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert