Emil Hallfreðsson rammaði inn það eina sem skiptir máli fyrir viðureign Íslands og Króatíu í Rostov annað kvöld á fréttamannafundi landsliðsins í Kabardinka í gærmorgun.
Emil var þá spurður út í hvaða augum hann myndi líta útkomu Íslands í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu í Rússlandi, ef íslenska liðið væri úr leik að riðlakeppninni lokinni.
Hann svaraði því til að þessarar spurningar mætti mögulega spyrja síðar. Íslenska liðið væri ekkert á heimleið, það myndi sigra Króatíu og Argentína myndi vinna Nígeríu 1:0.
Þessi þrautreyndi miðjumaður, sem þurfti að horfa á Nígeríuleikinn af varamannabekknum eftir að hafa átt stórleik gegn Argentínu, endurspeglaði þarna væntanlega viðhorf íslenska liðsins í heild sinni, enda er þetta eina leiðin til að nálgast verkefnið sem við blasir í Rostov-na-Donu, eða Rostov við Don eins og borgin heitir fullu nafni.
Þangað kom íslenska liðið síðdegis í gær með flugi frá Gelendzhik og í dag æfir það á hinum splunkunýja Rostov Arena, sem jafnframt er nýr heimavöllur Ragnars Sigurðssonar, Björns Bergmanns Sigurðarsonar og Sverris Inga Ingasonar. Þeir leika sem kunnugt er með liði Rostov í rússnesku úrvalsdeildinni.
Sjá greinina í heild sinni og umfjöllun um HM í Rússlandi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.