Son verður með á HM

Son Heung-Min hefur tilkynnt að hann fari með Suður-Kóreu á …
Son Heung-Min hefur tilkynnt að hann fari með Suður-Kóreu á HM 2022 í Katar. AFP/Jung Yeon-Je

Son Heung-Min, sóknarmaður suður-kóreska landsliðsins í knattspyrnu karla og Tottenham Hotspur á Englandi, hefur tekið af allan vafa um þátttöku sína á HM 2022 í Katar og segist munu fara með þjóð sinni á mótið.

Óttast var að Son myndi missa af mótinu eftir að hann fékk þungt höfuðhögg í leik Tottenham gegn Marseille í Meistaradeild Evrópu á dögunum.

Son augntóftarbrotnaði við höggið og þurfti af þeim sökum að gangast undir aðgerð. Þrátt fyrir það tilkynnti hann á Instagram-aðgangi sínum að meiðslin muni ekki koma í veg fyrir þátttöku hans á HM, sem hefst eftir 11 daga.

„Að spila fyrir þjóð sína á HM er draumur svo margra barna þegar þau vaxa úr grasi, og það á svo sannarlega líka við um mig.

Ég mun ekki missa af þessu hvað sem á bjátar. Ég get ekki beðið eftir því að spila fyrir hönd fallega landsins okkar, við sjáumst bráðum,“ skrifaði Son meðal annars á Instagram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert