Forseti FIFA: Siðferðileg hræsni Vesturlanda

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP/Kirill Kudryavtsev

„Ættum við Evrópubúar ekki að biðjast afsökunar á síðustu 3.000 árum áður en við förum að kenna öðrum siðferðilega lexíu?,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA, í aðdraganda heimsmeistaramótsins í fótbolta í Katar sem hefst á morgun. 

Heims­meist­ara­mótið í ár er eitt umdeildasta mót sög­unn­ar en mikið hef­ur verið fjallað um lág­launa­verka­menn­ina sem vinna að gerð vall­anna og að gera mótið sjálft klárt. Marg­ir þeirra hafa látið lífið við und­ir­bún­ing móts­ins. Einnig eru mis­mun­un­ar­lög sem refsa sam­kyn­hneigðum heitt umræðuefni í aðdrag­anda móts­ins. 

„Í dag ber ég sterkar tilfinningar. Í dag líður mér eins og Katarmanni, Araba, Afríkumanni, samkynhneigðum og fötluðum manni. Mér líður eins og verkamaður. 

Auðvitað er ég ekkert af þessum hlutum, en mér líður þannig, því ég veit hvernig það er að vera mismunaður, lagður í einelti, sem útlendingur í erlendu landi. Sem barn var ég lagður í einelti, því ég var rauðhærður og með freknur ásamt því að vera Ítali í Sviss.

Ég finn til með starfsfólki FIFA. Þau vilja skila árangari hér. Ég er stoltur að vera með FIFA merkið á jakkanum mínum. Þetta verður besta heimsmeistaramót sögunnar. Katar er tilbúið. 

Það eru hundruð þúsunda kvenna og karla frá þróunarlöndum sem vilja bjóða þjónustu sína erlendis til að gefa fjölskyldum sínum framtíð heima. Þau koma hingað og þéna tíu sinnum meira en í heimalandi sínu.“

Hversu mörg hafa rætt réttindi farandverkafólks við yfirvöld?

Infantino segir Vesturlönd og Evrópubúar eiga að líta í eigin barm áður en þau fara að kenna öðrum siðferðilega lexíu. 

„Fyrir það sem við Evrópubúar höfum verið að gera um allan heim á síðustu 3.000 árum ættum við að biðjast afsökunar á næstu 3.000 árum áður en við förum að kenna öðrum siðferðilega lexíu. 

Hversu mörg af þessum evrópsku eða vestrænu viðskiptafyrirtækjum sem græða milljónir á Katar, milljarða, hversu mörg þeirra hafa rætt réttindi farandverkafólks við yfirvöld?

Engin þeirra, því ef þú breytir löggjöfinni þýðir það minni hagnaður. En við gerum það og FIFA skilar miklu minna en nokkur þessara fyrirtækja frá Katar“ sagði Infantino. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka