Englendingar unnu stórsigur á Íran, 6:2, í fyrsta leiknum í B-riðli heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í Al Rayyan í Katar í dag.
Jude Bellingham skoraði á 35. mínútu og Bukayo Saka bætti við marki á 43. mínútu. Raheem Sterling kom Englandi í 3:0 á 45. mínútu.
Saka skoraði sitt annað mark og fjórða mark Englands á 62. mínútu en Mehdi Taremi svaraði fyrir Íran á 65. mínútu, 4:1. Marcus Rashford kom Englandi í 5:1 á 71. mínútu og Jack Grealish bætti við marki á 90. mínútu, 6:1. Taremi skoraði sitt annað mark úr vítaspyrnu á lokasekúndum uppbótartímans, 6:2.
Í þessum sama riðli eru Bandaríkin og Wales sem mætast í kvöld klukkan 19.
Strax á þriðju mínútu gerðu Englendingar tilkall til vítaspyrnu þegar Harry Maguire var togaður niður í vítateig Íran í hornspyrnu en dómari leiksins sinnti í engu beiðnum um að atvikið yrði skoðað. Maguire var aftur hættulegur skömmu síðar þegar hann átti skot í hliðarnetið.
Langt hlé var gert á leiknum snemma þegar Alireza Beiranvand markvörður Íran rakst harkalega á samherja sinn þannig að kjálkar þeirra skullu saman. Eftir langa aðhlynningu hélt Beiranvand áfram leik. Það entist þó ekki lengi því á 17. mínútu lagðist hann niður og bað um skiptingu.
Mount komst í gott færi á 30. mínútu eftir laglegt spil Englendinga en skaut í hliðarnetið.
England náði forystunni á 35. mínútu þegar Luke Shaw átti góða fyrirgjöf frá vinstri og Jude Bellingham, yngsti leikmaður enska liðsins, skoraði með fallegum skalla í hægra hornið, 1:0.
England komst í 2:0 á 43. mínútu. Shaw tók hornspyrnu frá vinstri, Maguire skallaði boltann hægra megin í vítateignum á Bukayo Saka sem skoraði með glæsilegu skoti upp undir þverslána hægra megin.
Á 45. mínútu náðu Englendingar snöggri sókn. Harry Kane fékk boltann hægra megin og sendi inn á markteig þar sem Raheem Sterling kom á ferðinni og skaut viðstöðulaust í hægra hornið, 3:0. Fjórtán mínútum var bætt við fyrri hálfleikinn vegna meiðsla markvarðarins.
Bukayo Saka skoraði sitt annað mark á 62. mínútu og kom Englandi í 4:0 þegar hann fékk boltann hægra megin í vítateignum, lék að honum miðjum og skaut síðan í varnarmann og inn.
Íran náði að svara fyrir sig á 65. mínútu þegar Mehdi Taremi fékk boltann í vítateig Englands og skoraði með hörkuskoti í þverslána og inn, 4:1.
Gareth Southgate landsliðsþjálfari Englands gerði fjórar breytingar á liði sínu á 70. mínútu. Marcus Rashford var einn þeirra sem komu inn á en hann fór rakleitt inn í vítateig Íran, fékk boltann frá Harry Kane og skoraði fimmta markið, 5:1, á 71. mínútu.
Harry Maguire var einn þeirra sem fóru af velli á 70. mínútu en hann virtist fá höfuðhögg í aðdraganda marksins sem Íranir skoruðu.
Á 90. mínútu spiluðu Englendingar vörn Írana sundur og saman, Callum Wilson komst einn gegn markverði hægra megin í vítateignum en renndi boltanum óeigingjarnt á Jack Grealish sem skoraði, 6:1. Tíu mínútum var bætt við síðari hálfleikinn.
Sardar Azmoun fékk dauðafæri til að skora fyrir Íran í uppbótartímanum þegar hann komst einn gegn enska markverðinum Jordan Pickford, sem varði skot hans í þverslána og út.
Íran fékk vítaspyrnu í blálokin, sem var tekin á tólftu mínútu uppbótartímans, og Mehdi Taremi skoraði sitt annað mark, 6:2.
Leikurinn varð einhver sá lengsti sem um getur því samtals var 26 mínútum bætt við hálfleikana tvo.
Lið Englands:
Mark: Jordan Pickford.
Vörn: Kieran Trippier, John Stones, Harry Maguire (Eric Dier 70.), Luke Shaw.
Miðja: Mason Mount (Phil Foden 70.), Declan Rice, Jude Bellingham.
Sókn: Bukayo Saka (Marcus Rashford 70.), Harry Kane (Callum Wilson 75.), Raheem Sterling (Jack Grealish 70.)