Hætta við að bera regnbogaarmbönd

Virgil van Dijk fær ekki að bera regnboga fyrirliðaband nema …
Virgil van Dijk fær ekki að bera regnboga fyrirliðaband nema sætta sig við að fá gult spjald strax í upphafi leiks. AFP/Alberto Pizzoli

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur tekið ákvörðun um að banna fyrirliðum liða sem taka þátt á HM 2022 í Katar að bera band með áletruninni „One Love“ á regnbogabakgrunni.

Knattspyrnusamband Hollands hugðist líkt og knattspyrnusambönd Englands og Danmerkur láta fyrirliða sína, Virgil van Dijk, Harry Kane og Simon Kjær, bera fyrirliðabönd til stuðnings LGBTQIA+ fólki, en samkynhneigð er ólögleg í Katar.

Í yfirlýsingu frá Knattspyrnusambandi Hollands segir að ákveðið hafi verið að hverfa frá þessum fyrirætlunum þar sem FIFA hefur beint þeim tilmælum til dómara á heimsmeistaramótinu að gefa fyrirliðum sem bera slíkt band gult spjald strax í upphafi leiks.

England og Danmörk hætta einnig við

„Við hörmum mjög að ekki hafi verið hægt að komast að skynsamlegri lausn í sameiningu. Við stöndum fyrir „One Love“ boðskapinn og munum halda áfram að dreifa honum, en fyrsta forgangsverkefni okkar á HM er að vinna leiki.

Þegar svo er vill maður ekki að fyrirliðinn byrji leiki á gulu spjaldi. Þess vegna höfum við, með sársauka í hjarta, þurft að ákveða að hætta við þessar fyrirætlanir okkar,“ sagði í tilkynningunni.

Af sömu ástæðum hafa knattspyrnusambönd Englands og Danmerkur sömuleiðis hætt við áætlanir sínar um að láta fyrirliða sína bera regnbogafyrirliðaband með áletruninni „One Love“ á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka