HM í dag: Lið Bandaríkjanna

Christian Pulisic, fyrir miðju, er í stóru hlutverki í bandaríska …
Christian Pulisic, fyrir miðju, er í stóru hlutverki í bandaríska liðinu. AFP/Patrick T. Fallon

Bandaríkjamenn eiga nú lið í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í tíunda skipti.

Bandaríkin gerðu jafntefli við Wales, 1:1, í fyrstu umferðinni og 0:0 við England í annarri umferðinni en sigruðu Íran 1:0 í þriðju umferð.

Bandaríkin eru í 16. sæti á heimslista FIFA, í öðru sæti þjóða Mið- og Norður-Ameríku. Bandaríkin komust í undanúrslit á fyrsta heimsmeistaramótinu árið 1930 og hafa aldrei náð að jafna þann árangur. Frá þeim tíma hefur liðið best náð að komast í 8-liða úrslitin á HM 2002 en liðið var einnig í lokakeppninni 1934, 1950, 1990, 1994, 1998, 2006, 2010 og 2014.

Bandaríkin sátu hjá í fyrstu tveimur umferðum undankeppni HM í Norður- og Mið-Ameríku og fóru beint í átta liða úrslitakeppni. Þar komst liðið á HM með því að enda í þriðja sæti, á eftir Kanada og Mexíkó, en á undan Kostaríka, Panama, Jamaíku, El Salvador og Hondúras.

Christian Pulisic, sóknarmaður Chelsea á Englandi, er lykilmaður í ungu og efnilegu liði Bandaríkjanna en hann hefur þegar skorað 21 mark í 52 landsleikjum. Efnilegir leikmenn á borð við Brenden Aaronson og Tyler Adams sem leika með enska liðinu Leeds, Weston McKennie frá Juventus og Gio Reyna hjá Dortmund í Þýskalandi hafa líka vakið talsverða athygli.

Gregg Berhalter hefur stýrt bandaríska liðinu undanfarin fjögur ár.
Gregg Berhalter hefur stýrt bandaríska liðinu undanfarin fjögur ár. AFP/Patrick T. Fallon

Bandaríska liðið lék tvo vináttuleiki fyrir HM í september, tapaði þá 0:2 fyrir Japan í Þýskalandi og gerði 0:0-jafntefli við Sádi-Arabíu á Spáni.

Gregg Berhalter þjálfar lið Bandaríkjanna en hann er 49 ára heimamaður sem tók við liðinu árið 2018. Áður þjálfaði hann Columbus Crew í fimm ár og þar á undan Hammarby í Svíþjóð í hálft annað ár en var rekinn þaðan. Berhalter lék 44 landsleiki fyrir Bandaríkin á árunum 1994-2006 en hann spilaði í Hollandi, Englandi og Þýskalandi í sextán ár.

LIÐ BANDARÍKJANNA:

Markverðir:
1 Matt Turner, 28 ára, Arsenal (Englandi), 20 leikir
12 Ethan Horvath, 27 ára, Luton (Englandi), 8 leikir
25 Sean Johnson, 33 ára, New York City, 10 leikir

Varnarmenn:
2 Sergino Dest, 22 ára, AC Milan (Ítalíu), 19 leikir, 2 mörk
3 Walker Zimmerman, 29 ára, Nashville, 33 leikir, 3 mörk
5 Antonee Robinson, 25 ára, Fulham (Englandi), 29 leikir, 2 mörk
13 Tim Ream, 35 ára, Fulham (Englandi), 46 leikir, 1 mark
15 Aaron Long, 30 ára, New York Red Bulls, 29 leikir, 3 mörk
18 Shaq Moore, 26 ára, Nashville, 15 leikir, 1 mark
20 Cameron Carter-Vickers, 24 ára, Celtic (Skotlandi), 11 leikir
22 DeAndre Yedlin, 29 ára, Inter Miami, 75 leikir
26 Joe Scally, 19 ára, Mönchengladbach (Þýskalandi), 3 leikir

Miðjumenn:
4 Tyler Adams, 23 ára, Leeds (Englandi), 32 leikir, 1 mark
6 Yunus Musah, 19 ára, Valencia (Spáni), 19 leikir
8 Weston McKennie, 24 ára, Juventus (Ítalíu), 37 leikir, 9 mörk
11 Brendan Aaronson, 22 ára, Leeds (Englandi), 24 leikir, 6 mörk
14 Luca de la Torre, 24 ára, Celta Vigo (Spáni), 12 leikir
17 Cristian Roldan, 27 ára, Seattle Sounders, 32 leikir
23 Kellyn Acosta, 27 ára, Los Angeles, 53 leikir, 2 mörk

Sóknarmenn:
7 Giovanni Reyna, 20 ára, Dortmund (Þýskalandi), 14 leikir, 4 mörk
9 Jesús Ferreira, 21 árs, Dallas, 15 leikir, 7 mörk
10 Christian Pulisic, 24 ára, Chelsea (Englandi), 52 leikir, 21 mark
16 Jordan Morris, 28 ára, Seattle Sounders, 49 leikir, 11 mörk
19 Haji Wright, 24 ára, Antalyaspor (Tyrklandi), 3 leikir, 1 mark
21 Timothy Weah, 22 ára, Lille (Frakklandi), 25 leikir, 3 mörk
24 Josh Sargent, 22 ára, Norwich (Englandi), 20 leikir, 5 mörk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert