Íranir sungu ekki þjóðsönginn

Stuðningsmenn Írans halda uppi borða til að styðja mótmælin í …
Stuðningsmenn Írans halda uppi borða til að styðja mótmælin í landinu. AFP/Fadel Senna

Leikmenn Írans sungu ekki þjóðsöng þjóðar sinnar fyrir leik sinn gegn Englandi á HM 2022 í Katar í dag og virtust með því styðja við mótmæli gegn írönskum stjórnvöldum sem hafa staðið yfir undanfarna tvo mánuði.

Mótmælin hafa staðið yfir í um tvo mánuði eftir að Mahsa Amini, 22 ára gömul kona af kúrdískum uppruna, lést í haldi siðgæðislögreglunnar í Íran, sem handtók Amini fyrir að klæðast ekki hijab-slæðu á réttan hátt.

Gerð er krafa af íslamska lýðveldinu Íran að konur klæðist ávallt slíkri slæðu á almannafæri en íranskar konur krefjast aukinna réttinda, með stuðningi frá fjölda karla.

Fyrirliðinn Alireza Jahanbaksh sagði fyrir leikinn að liðið myndi ákveða í sameiningu hvort það myndi neita að syngja þjóðsönginn til að styðja mótmælendur í heimalandinu.

Leikmennirnir stóðu íhugulir og alvarlegir á svip þegar þjóðsöngurinn var leikinn.

Leiknum var að ljúka með 2:6-tapi Írans fyrir Englandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert