Cody Gakpo kom Hollandi á bragðið þegar liðið mætti Senegal í A-riðli heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu á Al Thumama-leikvanginum í Doha í Katar í dag.
Leiknum lauk með 2:0-sigri Hollands en Gakpo kom Hollandi yfir með laglegum skalla á 85. mínútu áður en Davy Klaassen bætti við öðru marki hollenska liðsins á lokamínútum uppgefins uppbótartíma eftir að Senegal hafði freistað þess að jafna metin.
Holland er með 3 stig í öðru sæti riðilsins, líkt og Ekvador, en Senegal og Katar eru án stiga.
Í annarri umferð riðlakeppninnar mætast Katar og Senegal annars vegar og Holland og Ekvador hins vegar.
Daley Blind fékk fyrsta færi leiksins á 17. mínútu en skalli hans af stuttu færi úr teignum fór rétt fram hjá marki Senegals eftir fyrirgjöf frá Cody Gakpo á hægri vængnum.
Tveimur mínútum síðar slapp Frenkie De Jong einn í gegn eftir laglegan undirbúning Steven Berghuis en De Jong var of lengi að athafna sig og varnarmönnum Senegals tókst að koma boltanum í burtu á síðustu stundu.
Steven Berghuis átti flott skot af D-boganum á 40. mínútu eftir laglegt spil hollenska liðsins en skotið fór rétt yfir markið.
Hollenska liðið var sterkara í fyrri hálfleik, án þess þó að ná að skapa sér afgerandi marktækifæri, og staðan í hálfleik því markalaus.
Hollendingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og Virgil van Dijk átti hörkuskalla eftir hornspyrnu á 53. mínútu en boltinn fór enn og aftur rétt yfir markið.
Boulaye Dia átti hörkuskot að marki hollenska liðsins á 65. mínútu, úr miðjum vítateignum, en Andries Noppert var vandanum vaxinn í markinu og varði vel.
Idrissa Gueye átti svo annað hörkuskot, rétt utan teigs, á 75. mínútu en Noppert var mjög vel staðsettur í marki Hollands og varði.
Á 82. mínútu átti Ismaila Sarr skalla að marki Hollands en sóknarmaðurinn þurfti að teygja sig í boltann sem fór himinhátt yfir markið.
Það var svo Cody Gakpo sem braut ísinn fyrir hollenska liðið á 85. mínútu eftir frábæran undirbúning Frenkies De Jong. De Jong átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri og Gakpo var mættur í miðjan teiginn og hann skallaði boltann yfir Edouard Mendy sem var kominn vel út úr markinu og staðan orðin 1:0.
Mínútu síðar átti Pape Guye hörkuskot að marki Hollands af 30 metra færi en Noppert var mættur í hornið og varði í horn.
Cheikh Dieng fékk frábært færi til að jafna metin fyrir Senegal í uppbótartíma en skalli hans úr markteignum fór langt yfir markið.
Það var svo Davy Klaassen sem innsiglaði sigur hollenska liðsins með marki í uppbótartíma þegar Memphis Depay átti skot að marki Senegals sem Mendy varði út í teiginn. Klassen var fyrstur að átta sig og hann fylgdi eftir skoti Memphis og skoraði fram hjá Mendy í markinu og lokatölur því 2:0 í Doha.
Lið Hollands:
Mark: Andries Noppert.
Vörn: Danzel Dumfries, Matthijs de Ligt, Virgil van Dijk, Nathan Ake, Daley Blind.
Miðja: Cody Gakpo, Steven Berghuis (Teun Koopmeiners 79.), Frenkie De Jong.
Sókn: Steven Bergwijn (Davy Klaassen 79.), Vincent Janssen (Memphis Depay 62.).