HM í dag: Lið Ástralíu

Mathew Ryan er markvörður ástralska landsliðsins og FC Köbenhavn.
Mathew Ryan er markvörður ástralska landsliðsins og FC Köbenhavn. AFP/Chandan Khanna

Ástralir eru mættir á sitt sjötta heimsmeistaramót karla í fótbolta.

Ástralir töpuðu 1:4 fyrir Frökkum í fyrstu umferðinni en sigruðu Túnis 1:0 í annarri umferð og Danmörku 1:0 í þriðju umferð.

Ástralía er í 38. sæti á heimslista FIFA, efst liða í Eyjaálfu. Liðið spilar þó ekki í undankeppni þar því Ástralir hafa tilheyrt knattspyrnusambandi Asíu frá árinu 2006. Í hópi Asíuþjóða eru þeir í fjórða sæti á heimslistanum. Ástralir hafa einu sinni komist í 16-liða úrslit HM, í Þýskalandi árið 2006. Þeir léku einnig í lokakeppninni 1974, 2010, 2014 og 2018. Ástralir unnu margsinnis undankeppnina í Eyjaálfu en töpuðu síðan yfirleitt í umspili, þannig að það reyndist klókur leikur hjá þeim að flytja sig yfir til Asíu.

Ástralir unnu sinn riðil í 2. umferð undankeppninnar í Asíu, þar sem þeir fengu fullt hús stiga gegn Kúveit, Jórdaníu, Nepal og Taívan. Í úrslitakeppninni enduðu þeir í þriðja sæti í sínum riðli, á eftir Sádi-Arabíu og Japan en á undan Óman, Kína og Víetnam. Þeir unnu Sameinuðu furstadæmin 2:1 í leik um fimmta sætið í Asíu og mættu síðan Perú í umspilsleik um sæti á HM. Sá leikur endaði 0:0 en Ástralir sigruðu í vítakeppni og voru loks komnir á HM eftir 20 leikja baráttu.

Ástralski þjálfarinn Graham Arnold, til vinstri, ræðir málin við Tim …
Ástralski þjálfarinn Graham Arnold, til vinstri, ræðir málin við Tim Cahill, leikjahæsta landsliðsmann sögunnar í Ástralíu. AFP/Paul Ellis

Markvörðurinn Mathew Ryan, sem áður lék m.a. með Brighton og Arsenal, ver nú mark Íslendingaliðsins FC Köbenhavn og er fyrirliði Ástrala. Sóknarmaðurinn Mathew Leckie lék lengi í Þýskalandi og miðjumaðurinn Aaron Mooy lék með Huddersfield og Brighton á Englandi og nú með Celtic í Skotlandi. Sex af áströlsku leikmönnunum spila í skosku úrvalsdeildinni.

Ástralir léku tvo vináttulandsleiki í september, báða gegn grönnum sínum frá Nýja-Sjálandi, og unnu þá 2:0 á útivelli og 1:0 á heimavelli.

Graham Arnold þjálfar lið Ástralíu en hann er 59 ára gamall, fyrrverandi landsliðsmaður Ástrala og skoraði 19 mörk í 56 landsleikjum. Arnold lék í sjö ár í Hollandi og Belgíu. Hann hefur þjálfað landsliðið frá árinu 2018 en stýrði áður nokkrum af sterkustu liðum landsins, ásamt því að vera aðstoðarlandsliðsþjálfari um átta ára skeið á fyrsta áratug aldarinnar.

LIÐ ÁSTRALÍU:

Markverðir:
1 Mathew Ryan, 30 ára, Köbenhavn (Danmörku), 75 leikir
12 Andrew Redmayne, 33 ára, Sydney, 4 leikir
18 Danny Vukovic, 37 ára, Central Coast Mariners, 4 leikir

Varnarmenn:
2 Milos Degenek, 28 ára, Columbus Crew (Bandaríkjunum), 38 leikir, 1 mark
3 Nathaniel Atkinson, 23 ára, Hearts (Skotlandi), 5 leikir
4 Kye Rowles, 24 ára, Hearts (Skotlandi), 3 leikir
5 Fran Karacic, 26 ára, Brescia (Ítalíu), 11 leikir, 1 mark
8 Bailey Wright, 30 ára, Sunderland (Englandi), 27 leikir, 2 mörk
16 Aziz Behich, 31 árs, Dundee United (Skotlandi), 53 leikir, 2 mörk
19 Harry Souttar, 24 ára, Stoke (Englandi), 10 leikir, 6 mörk
20 Thomas Deng, 25 ára, Albirex Niigata (Japan), 2 leikir
24 Joel King, 22 ára, OB (Danmörku), 4 leikir

Miðjumenn:
10 Ajdin Hrustic, 26 ára, Hellas Verona (Ítalíu), 20 leikir, 3 mörk
13 Aaron Mooy, 32 ára, Celtic (Skotlandi), 53 leikir, 7 mörk
14 Riley McGree, 24 ára, Middlesbrough (Englandi), 11 leikir, 1 mark
17 Cameron Devlin, 24 ára, Hearts (Skotlandi), 1 leikur
22 Jackson Irvine, 29 ára, St. Pauli (Þýskalandi), 49 leikir, 7 mörk
26 Keanu Baccus, 24 ára, St. Mirren (Skotlandi), 1 leikur

Sóknarmenn:
6 Marco Tilio, 21 árs, Melbourne City, 5 leikir
7 Mathew Leckie, 31 árs, Melbourne City, 73 leikir, 13 mörk
9 Jamie Maclaren, 29 ára, Melbourne City, 26 leikir, 8 mörk
11 Awer Mabil, 27 ára, Cádiz (Spáni), 29 leikir, 8 mörk
15 Mitchell Duke, 31 árs, Fagiano Okayama (Japan), 21 leikur, 8 mörk
21 Garang Kuol, 18 ára, Central Coast Mariners, 1 leikur
23 Craig Goodwin, 30 ára, Adelaide United, 10 leikir, 1 mark
25 Jason Cummings, 27 ára, Central Coast Mariners, 1 leikur, 1 mark

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert