HM í dag: Lið Frakklands

Kylian Mbappé hefur skorað 28 mörk í 59 landsleikjum fyrir …
Kylian Mbappé hefur skorað 28 mörk í 59 landsleikjum fyrir Frakka. AFP/Franck Fife

Frakkar leika nú á sínu sextánda heimsmeistaramóti karla í fótbolta.

Frakkar sigruðu Ástrala 4:1 í fyrstu umferð mótsins og Dani 2:1 í annarri umferð en töpuðu 0:1 fyrir Túnis í lokaumferð D-riðilsins. Í 16-liða úrslitum vann Frakkland sigur á Póllandi, 3:1, og í 8-liða úrslitum lögðu Frakkar Englendinga, 2:1. Þeir sigruðu síðan Marokkó 2:0 í undanúrslitum.

Frakkar eru í fjórða sæti á heimslista FIFA, á eftir Brasilíu, Belgíu og Argentínu. Þeir urðu heimsmeistarar 1998 og 2018, fengu silfrið á HM 2006 og bronsið 1958 og 1986, og þeir komust einnig í undanúrslit 1982. Frakkar léku á þremur fyrstu mótunum, frá 1930 til 1938, og eru nú á sínu sjöunda heimsmeistaramóti í röð.

Frakkar komust á HM með því að vinna sinn undanriðil þar sem þeir fengu 18 stig í átta leikjum gegn Úkraínu, Finnlandi, Bosníu og Kasakstan.

Kylian Mbappé verður án efa í stóru hlutverki í stjörnum prýddu liði Frakka, sem þó eru án nokkurra meiddra lykilmanna. Þeir eru líka með hinn þrautreynda Olivier Giroud og Antoine Griezmann í fremstu víglínu. Fyrirliðinn Hugo Lloris er í markinu og Raphaël Varane í vörninni. Giroud er næstmarkahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi og Griezmann er þriðji. Lloris getur slegið leikjamet Lilians Thurams fyrir landsliðið ef Frakkar komast í 16-liða úrslit.

Didier Deschamps er mættur á sitt þriðja heimsmeistaramót með franska …
Didier Deschamps er mættur á sitt þriðja heimsmeistaramót með franska liðið og á titil að verja. AFP/Franck Fife

Síðustu leikir Frakka fyrir HM voru tveir leikir í Þjóðadeildinni í september þar sem þeir unnu Austurríki 2:0 á heimavelli en töpuðu 2:0 fyrir Dönum í Kaupmannahöfn.

Didier Deschamps er þjálfari Frakka. Hann er 54 ára gamall og hefur stýrt þeim í heil tíu ár. Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar undir hans stjórn, unnu Þjóðadeildina 2021 og fengu silfur á EM 2016. Áður stýrði hann liðum Marseille, Juventus og Mónakó. Sem leikmaður varð Deschamps heimsmeistari 1998 og Evrópumeistari 2000 með Frökkum en hann lék sjálfur 103 landsleiki. 

LIÐ FRAKKLANDS:

Markverðir:
1 Hugo Lloris, 35 ára, Tottenham (Englandi), 139 leikir
16 Steve Mandanda, 37 ára, Rennes, 34 leikir
23 Alphonse Areola, 29 ára, West Ham (Englandi), 5 leikir

Varnarmenn:
2 Benjamin Pavard, 26 ára, Bayern München (Þýskalandi), 46 leikir, 2 mörk
3 Axel Disasi, 24 ára, Mónakó, nýliði
4 Raphaël Varane, 29 ára, Manchester United (Englandi), 87 leikir, 5 mörk
5 Jules Koundé, 24 ára, Barcelona (Spáni), 12 leikir
17 William Saliba, 21 árs, Arsenal (Englandi), 7 leikir
18 Dayot Upamecano, 24 ára, Bayern München (Þýskalandi), 7 leikir, 1 mark
21 Lucas Hernandez, 26 ára, Bayern München (Þýskalandi), 32 leikir
22 Theo Hernandez, 25 ára, AC Milan (Ítalíu), 7 leikir, 1 mark
24 Ibrahima Konaté, 23 ára, Liverpool (Englandi), 2 leikir

Miðjumenn:
6 Matteo Guendouzi, 23 ára, Marseille, 6 leikir, 1 mark
8 Aurélien Tchouaméni, 22 ára, Real Madrid (Spáni), 14 leikir, 1 mark
13 Youssouf Fofana, 23 ára, Mónakó, 2 leikir
14 Adrien Rabiot, 27 ára, Juventus (Ítalíu), 29 leikir, 2 mörk
15 Jordan Veretout, 29 ára, Marseille, 5 leikir
25 Eduardo Camavinga, 20 ára, Real Madrid (Spáni), 4 leikir, 1 mark

Sóknarmenn:
7 Antoine Griezmann, 31 árs, Atlético Madrid (Spáni) 110 leikir, 42 mörk
9 Olivier Giroud, 36 ára, AC Milan (Ítalíu), 114 leikir, 49 mörk
10 Kylian Mbappé, 23 ára, París SG, 59 leikir, 28 mörk
11 Ousmane Dembélé, 25 ára, Barcelona (Spáni), 28 leikir, 4 mörk
12 Randal Kolo Muani, 23 ára, Eintracht Frankfurt (Þýskalandi), 2 leikir
20 Kingsley Coman, 26 ára, Bayern München (Þýskalandi), 40 leikir, 5 mörk
26 Marcus Thuram, 25 ára, Mönchengladbach (Þýskalandi), 4 leikir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert