Sniðganga ekki svarið

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, kveðst vonsvikin yfir framferði Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) sem hefur hótað því að refsa fyrirliðum sem beri fyrirliðaband í regnbogalitum á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu.

Fyrirliðar sjö þjóða ætluðu að bera regnbogaböndin til stuðnings LGBTQIA+ fólki en samkynhneigð er ólögleg í Katar þar sem mótið fer nú fram. 

Mótið í ár er haldið í skugga mannréttindabrota og spillingar og er án efa umdeildasta úrslitakeppni FIFA frá upphafi. Talið er að um sex þúsund farandverkamenn hafi látið lífið við framkvæmdir í aðdraganda mótsins.

Margir hafa kallað eftir því að mótið verði sniðgengið í ár í ljósi alls þess sem gengið hefur á.

Klara og Geir hittu verkafólk í Katar árið 2016

Vanda, sem er stödd í Katar um þessar mundir ásamt framkvæmdastjóra KSÍ og yfirmanni knattspyrnumála hjá sambandinu, segir ákvörðunina um að sniðganga mótið ekki hafa verið tekna fyrir sína tíð.

Á sínum tíma hafi Norðurlandaþjóðirnar ákveðið að frekar ætti að nýta tækifærið til þess að beita sér og vinna hörðum höndum að því að bæta aðstöðu farandverkafólks. Sú vinna hafi byrjað árið 2014 og síðan þá hafi vinnuhópur verið stofnaður sem Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur nú tekið yfir að hluta.

„Fyrsta ferðin hingað út var árið 2016. Þá var Geir Þorsteinsson formaður og Klara Bjartmarz [framkvæmdastjóri] fór með honum og þau hittu meðal annars verkafólk milliliðalaust og síðan er búin að vera stanslaus vinna meðal Norðurlandanna og Ísland hefur verið partur af því allan tímann síðan.“

Ánægð með afrakstur vinnunnar

Vanda segir formenn knattspyrnusambanda Norðurlandaþjóðanna úti í Katar til þess að taka þátt í stórum fundi á vegum FIFA þar sem þessi mál hafa verið rædd.

„Það var einn Finni sem sagði við mig í dag „Boycott is not the answer“ [„sniðganga er ekki svarið“], og var í rauninni að meina að fyrir okkur sem erum svona litlar þjóðir sé það okkar leið til þess að ná árangri að láta rödd okkar heyrast, sem er akkúrat eins og við höfum verið að gera í gegnum samtöl og þrýsting,“ segir Vanda sem kveðst jafnframt ánægð með þann árangur sem Norðurlandaþjóðirnar hafa náð.

„Ég hef sagt það, ég tel að samtalið skili allavega í þessum tilfellum betri árangri og það hefur sýnt sig finnst mér að það hefur alls konar árangur náðst.“

Spurð nánar út í þann árangur nefnir Vanda „ýmsan árangur“ varðandi réttindi. Þá sé einnig verið að vinna að því að setja á laggirnar sjóð fyrir þá sem hafa slasast og fyrir bætur til aðstandenda þeirra sem hafa látist við uppbyggingu í aðdraganda mótsins. Þetta sé eitthvað sem vinnuhópur á vegum UEFA hefur m.a. verið að skoða. 

Þá segir hún mjög mikla áherslu lagða á að halda starfinu í Katar áfram eftir að HM lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert