Fjarlægðu treyju merkta Amini

Stuðningskona Írans, hvers treyja var fjarlægð af öryggisvörðum í dag.
Stuðningskona Írans, hvers treyja var fjarlægð af öryggisvörðum í dag. AFP/Giuseppe Cacace

Öryggisverðir á leik Íran og Wales í B-riðli HM karla í knattspyrnu í Katar fjarlægðu treyju merkta Mahsa Amini, írönsku konunni sem lést í haldi siðalögreglu íslömsku þjóðarinnar, á meðan leiknum stóð í dag.

Stuðningsfólk Írans á HM hefur verið duglegt að styðja við mótmælin gegn írönskum stjórnvöldum, sem hafa staðið yfir í Íran á þriðja mánuð, eftir að Amini lést undir afar grunsamlegum aðstæðum.

Þeirra á meðal var kona sem hélt á landsliðstreyju Írans sem var merkt Mahsa Amini með númerinu 22, en hún var 22 ára gömul þegar hún féll frá.

Stuðningsfólk Írans með fánann og treyjuna sem voru fjarlægð í …
Stuðningsfólk Írans með fánann og treyjuna sem voru fjarlægð í dag. AFP/Giuseppe Cacace

Öryggisverðir á Ahmed bin Ali-vellinum í Al Rayyan ákváðu þó að hrifsa treyjuna af konunni og fjarlægja. Einnig fjarlægðu þeir íranskan fána af karli sem var með áletruninni „Kona - Líf - Frelsi.“

Öryggisverðirnir á þeim velli komust einnig í fréttir í byrjun vikunnar þegar þeir meinuðu stuðningsfólki Wales og Bandaríkjanna að klæðast fötum eða bera hatta í regnbogalitum til stuðnings réttindabaráttu LG­BTQIA+ fólks.

Öryggisvörður tekur fána mannsins af honum.
Öryggisvörður tekur fána mannsins af honum. AFP/Giuseppe Cacace
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert