Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, er allt annað en sátt við þá ákvörðun að halda HM karla í fótbolta í Katar.
Gunnhildur, sem er í sambandi með kanadísku knattspyrnukonunni Erin McLeod, skrifaði pistil á Twitter þar sem hún lýsti yfir vonbrigðum sínum með að mótið skyldi vera haldið í landi þar sem líf samkynhneigðra er stefnt í hættu. Samkynhneigð er ólögleg í Katar.
Landsliðskonan er einnig ósátt við ákvörðun FIFA að banna fyrirliðum nokkurra Evrópulanda að vera með fyrirliðabönd í regnbogalitum. Lýsti hún því sem höggi í magann og risastóru skrefi aftur á bak.
„Heimurinn er ekki öruggur fyrir samkynhneigða, það er bara þannig, og því miður ýtir framkoma FIFA undir ástandið,“ skrifaði hún meðal annars. Þá hrósaði hún landsliði Þýskalands fyrir að mótmæla banni regnbogabandsins.
„Ég vona að yfirstandandi heimsmeistaramót í knattspyrnu og sú umræða um stöðu samkynhneigðra sem tengist því veki athygli þannig að fleiri taki þátt í baráttunni.
Við getum ekki bara beðið eftir að hlutirnir breytist, heldur verða knattspyrnuyfirvöld, þjálfarar, leikmenn og stuðningsmenn að taka þátt í þeirri baráttu að skapa umhverfi sem býður alla velkomna. Fótbolti er fyrir alla. Punktur.“