Martínez hættur með Belga

Roberto Martínez stýrði Belgíu í síðasta skipti í dag.
Roberto Martínez stýrði Belgíu í síðasta skipti í dag. AFP/Gabriel Bouys

Spænski knattspyrnuþjálfarinn Roberto Martínez er hættur með belgíska karlalandsliðið eftir að liðinu mistókst að komast í 16-liða úrslit HM í Katar.

Hinn 49 ára gamli Martínez tók við belgíska liðinu árið 2016, en hann var með samning út heimsmeistaramótið.

Undir hans stjórn varð Belgía í þriðja sæti á HM í Rússlandi fyrir fjórum árum, en liðið náði sér ekki á strik í Katar. Belgía skoraði aðeins eitt mark og vann einn leik á mótinu í ár. 

Undir stjórn Spánverjans var Belgía í efsta sæti styrkleikalista FIFA frá september 2018 og allt til marsmánaðar á þessu ári.

„Þetta var síðasti leikurinn minn. Auðvitað eru miklar tilfinningar í þessu,“ sagði Martínez á blaðamannafundi eftir markalausa jafnteflið við Króatíu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert