Portúgalska knattspyrnusambandið segir að fréttir um að Cristiano Ronaldo hafi hótað að yfirgefa portúgalska landsliðið á heimsmeistaramótinu í Katar séu rangar.
Ronaldo var settur á varamannabekkinn fyrir leik liðsins gegn Sviss í 16-liða úrslitunum á þriðjudagskvöldið og kom inn á seint í leiknum.
Ronaldo ræddi við Fernando Santos landsliðsþjálfara daginn eftir og fréttir fóru af stað um að þar hefði hann hótað því að yfirgefa landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Marokkó í átta liða úrslitunum á laugardaginn.
Í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér í dag segir að fréttirnar séu rangar. „Sambandið staðfestir að fyrirliði landsliðsins, Cristiano Ronaldo, hótaði aldrei að yfirgefa liðið á meðan keppnin stæði yfir í Katar. Cristiano Ronaldo bætir stöðugt við ótrúlegan feril sinn með hverjum deginum sem hann þjónar landsliðinu og þjóð sinni, og það ber að virða, og það sýnir hollustu hans við landsliðið," segir m.a. í yfirlýsingunni, sem og að Ronaldo sé eins og allt liðið, leikmenn, þjálfarar og sambandið, staðráðið í að Portúgal muni ná sínum besta árangri í sögunni á HM.
Til þess þarf liðið að leika úrslitaleikinn um heimsmeistaratitilinn en besti árangur Portúgals náðist á fyrsta móti liðsins, 1966 á Englandi, þegar það hreppti bronsverðlaunin.