Fernando Santos, þjálfari potrúgalska landsliðsins í knattspyrnu, bað fjölmiðla um að láta fyrirliða liðsins Cristiano Ronaldo i friði á blaðamannafundi liðsins í dag.
Portúgal undirbýr sig nú fyrir leik gegn Marokkó í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar en leikurinn fer fram í Doha á morgun.
Ronaldo hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, fyrst eftir afar umdeilt viðtal sem hann fór í hjá fjölmiðlamanninum Piers Morgan á dögunum og svo eftir að Santos tók þá ákvörðun að bekkja sóknarmanninn fyrir leikinn gegn Sviss í 16-liða úrslitum keppninnar.
„Það er kominn tími til þess að fólk láti Ronaldo í friði,“ sagði Santos þegar hann var spurður út í málefni Portúgalans í dag.
„Hann hefur aldrei minnst einu orði á það að hann vilji yfirgefa herbúðir liðsins og Katar.
Það er kominn tími til þess að hætta þessum eilífu nornaveiðum,“ bætti Santos við.