Höfum unnið fimm úrslitaleiki

Lionel Messi fagnar sigrinum í leikslok í kvöld.
Lionel Messi fagnar sigrinum í leikslok í kvöld. AFP/Juan Mabromata

Lionel Messi sagði eftir sigur Argentínu á Króatíu, 3:0, í undanúrslitum heimsmeistarmótsins í fótbolta í Katar að liðið væri nú búið að vinna fimm úrslitaleiki í röð.

„Fyrsti leikurinn okkar á mótinu var talsvert áfall, því við höfðum verið ósigraðir í sex leikjum og við reiknuðum ekki með því að tapa fyrir Sádi-Arabíu," sagði Messi við fréttamenn eftir leikinn.

„Það var gríðarleg prófraun fyrir allt liðið að vinna úr því en við höfum sýnt hversu sterkir við erum. Við höfum unnið alla leikina síðan og það var afar erfitt. Hver einasti leikur hefur verið úrslitaleikur og við vissum í hvert skipti að við værum í slæmum málum ef okkur tækist ekki að sigra.

Við höfum núna unnið fimm úrslitaleiki og vonandi heldur það áfram í úrslitaleiknum á sunnudaginn. Við töpuðum fyrsta leiknum á mótinu vegna nokkurra smáatriða en það tap gerði okkur sterkari," sagði Messi.

Hann kvaðst njóta þess í botn að spila á mótinu. „Ég nýt þess svo sannarlega, finnst ég vera í góðu formi og klár í slaginn fyrir alla leiki. Við vorum úrvinda eftir síðasta leik og vorum því þreyttir í dag en okkur tókst að ná fram okkar styrkleikum og verðskulduðum sigurinn.

Við spiluðum mjög vel og vildum leika eins og við gerðum vegna þess að við vissum að þeir vildu helst ekki vera með boltann. Við vissum að við yrðum að hlaupa mikið og vorum geysilega vel undirbúnir fyrir leikinn. Mér líður mjög vel í þessari keppni og hef getað hjálpað liðinu," sagði Lionel Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert