Þarf stundum að minna sig á það

Sandra nýtti öll vítin sín í dag.
Sandra nýtti öll vítin sín í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

„Ég er ógeðslega svekkt eftir þennan leik,“ sagði Sandra Erlingsdóttir, leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir tap fyrir Slóveníu, 30:24, í fyrsta leik Íslands í D-riðli á HM í handbolta í Stafangri í Noregi í dag.

„Við fengum tækifæri til að komast enn betur í leikinn og jafnvel komast yfir en með tæknifeilum gegn liði sem refsar svona illa var þetta of stórt skref í dag,“ bætti Eyjakonan við.

Íslenska liðið átti í erfiðleikum í upphafi leiks og lenti snemma sjö mörkum undir. Með glæsilegu svari tókst Íslandi að minnka muninn í eitt mark í seinni hálfleik, en Slóvenía var sterkari á lokakaflanum.

Sandra fórnar sér fyrir málstaðinn í dag.
Sandra fórnar sér fyrir málstaðinn í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

„Ég veit ekki alveg hvað þetta var í byrjun, en við byrjuðum mjög illa. Það má kannski segja að við höfum verið stressaðar í fyrsta leik á HM, en við gerðum mjög vel í að komast inn í leikinn aftur. Það var krefjandi, en svo vantaði aðeins í lokin.

Við fórum aðeins inn á við, hugsuðum hvert við værum komnar og vöknuðum. Stundum þarf maður aðeins að hrista úr sér stressið og þá kemur þetta með hjálp frá öllum í stúkunni,“ sagði hún.

Sandra leitar leiða framhjá vörn Slóveníu í dag.
Sandra leitar leiða framhjá vörn Slóveníu í dag. AFP/Beate Dahle

Sandra sagði það lélega afsökun að skrifa lokakaflann á reynsluleysi, gegn reynslumiklu liði. „Þetta var fyrsta HM hjá okkur í mörg ár á meðan þær eru á stórmóti á hverju ári. Mér finnst það samt léleg afsökun. Við eigum að geta að klárað svona leiki, en þetta fer í reynslubankann.“

En hvernig var að spila á HM í fyrsta skipti?

„Þetta var sturlað og eitthvað sem manni hefur dreymt um. Maður þarf stundum að minna sig á það. Maður verður að njóta þess líka,“ sagði Sandra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert