Dragan Gajic frá Slóveníu, markahæsti leikmaður heimsmeistaramótsins í handknattleik í Katar, tilkynnti í dag að þetta hefði verið hans síðasta heimsmeistaramót á ferlinum.
Gajic tilkynnti þetta á Facebook en áður hafði annar lykilmaður Slóvena, Uros Zorman, einnig boðað brotthvarf sitt frá landsliðinu.
Gajic, sem er 31 árs, kveðst hinsvegar stefna að því að hjálpa slóvenska liðinu til að komast í lokakeppni næsta Evrópumóts, sem og á Ólympíuleikana í Ríó 2016. Slóvenar enduðu í áttunda sæti HM í Katar, sem þýðir að ef Katar vinnur undankeppni Ólympíuleikanna í Asíu, eða eitthvert liðanna sem enduðu í þriðja til sjöunda sæti á HM verður Evrópumeistari 2016, komast Slóvenar í forkeppni ÓL.