Geir brást illur við spurningu mbl.is

Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. mbl.is/Golli

Geir Sveinsson, þjálfari íslenska landsliðsins, brást mjög illur við spurningu undirritaðs eftir tapleikinn gegn Slóvenum á HM í handknattleik í Metz í dag.

Geir var vitaskuld sár og svekktur eins og leikmenn íslenska liðsins eftir tapleikinn en lærisveinar Geirs skiluðu heilt yfir mjög góðri frammistöðu og gáfu allt sem þeir áttu en uppskáru því miður ekkert stig. Íslendingar eru þar með án stiga eftir tvo fyrstu leikina gegn sterkustu mótherjunum í riðlinum, Spánverjum og Slóvenum, en eiga eftir að spila við Túnis, Angóla og Makedóníu.

Er það ekki ljóst að það verður brekka það sem eftir í riðlinum þar sem þið eruð án stiga eftir tvo fyrstu leikina? var spurning undirritaðs og Geir svaraði:

„Ég skil ekki þessa spurningu. Það er alveg vitað að við þurfum stig til að komast áfram. Ef við vorum með væntingar um að taka þrjú eða fjögur stig út úr þessum tveimur fyrstu leikjunum þá talar þú um brekku héðan í frá. Ég er bara mjög óhress með þessa spurningu þína,“ sagði Geir og bætti svo heldur betur í röddina; „Þetta er alveg út úr korti. Að sjálfsögðu er þetta brekka. Við erum komnir hingað til að vinna hvern einasta helvítis leik og það er það sem við erum að gera. Við töpuðum með einu marki. Næsta spurning.“

Hvert er þitt mat á leiknum?

„Ég er bara drullusvekktur,“ sagði Geir mjög æstur. „Við vorum að spila frábæran handbolta, stóðum okkur snilldarlega en því miður dugði það ekki,“ sagði Geir, sem var orðinn enn æstari.

Slakaðu á Geir, sagði ég við Geir þegar þarna var komið í viðtalinu og Geir svaraði að bragði „Ég er mjög slakur.“.

Ertu ekki sammála því að sóknarleikurinn hafi verið stirður í fyrri hálfleiknum?

„Að sjálfsögðu og við skoruðum ekki nema átta mörk. Við náðum að leysa það í hálfleiknum og vinna úr því. Ég sagði við strákana að þeir þyrftu að fjölga sendingunum, vera grimmari í því sem við vorum að gera, vera þolinmóðari og bíða eftir tækifærunum. Við þurftum að hreyfa þessa vörn þar sem þeir stóðu gjörsamlega flatir á sex metrunum. Við þurftum að toga þá í sundur og það gekk eftir,“ sagði Geir.

Sigurinn hefði vel getað dottið okkar megin eins og leikurinn þróaðist í seinni hálfleik?

„Hvað fannst þér, Gummi? Við töpuðum með einu marki og þetta verður ekki tæpara,“ sagði Geir, sem enn var mjög æstur og reiður.

Það er stutt í næsta leik. Túnis eftir einn sólarhring? „Já það er brekkuleikur. Það er ljóst,“ sagði Geir og rauk úr viðtalinu.

Þess má geta að Geir kom stuttu síðar til undirritaðs og baðst afsökunar. Áfram Ísland!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert