Mótsstjóri heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í München hefur beðist afsökunar á að klippt var á flutning íslenska þjóðsöngsins eftir aðeins eina mínútu fyrir leik Íslands og Króatíu í Ólympíuhöllinni. Unnið er að lausn á málinu þannig að öll útgáfa þjóðsöngsins verði leikin fyrir næstu leiki íslenska landsliðsins á mótinu.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, sagði í samtali við mbl.is að mótstjórinn hefði beðist afsökunar í gærkvöldi. Hins vegar væri tímaramminn fyrir hvern leik þröngur og aðeins væri reiknað með að flutningur hvers þjóðsöngs taki eina mínútu. Full útgáfa af þeim íslenska væri 1:54 mínútur.
„Við erum með styttri útgáfu sem tekur um eina og hálfa mínútu í flutningi,“ sagði Guðmundur og var bærilega bjartsýnn á að lausn fáist í málið fyrir leik Íslands og Spánar annað kvöld.