Eru Arnór og Aron úr leik?

Aron Pálmarsson í baráttu við Hendrik Pekeler og Jannik Kohlbacher …
Aron Pálmarsson í baráttu við Hendrik Pekeler og Jannik Kohlbacher í leiknum við Þjóðverja í kvöld. AFP

Íslenska landsliðið í handknattleik gæti hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku í kvöld þegar tveir leikmenn liðsins meiddust í viðureigninni við Þýskaland í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Lanxess-Arena í Köln.

Aron Pálmarsson og Arnór Þór Gunnarsson meiddust og hugsanlegt er að þeir geti ekki beitt sér eða ekki tekið þátt í leiknum við Frakka annað kvöld af þessum sökum. Eins er ekki hægt að útiloka að þátttöku þeirra á mótinu sé lokið.

Aron meiddist á nára og Arnór Þór tognaði aftan verðu læri. Þeir fara rakleitt eftir leikinn til skoðunar hjá Brynjólfi Jónssyni og Jóni Birgi Guðmundssyni sjúkraþjálfara.

„Ég fann fyrir í náranum í vörninni snemma leiks og síðan versnaði það þegar ég skoraði í einni sókninni um miðjan hálfleikinn og fór af leikvelli í kjölfarið," sagði Aron í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld. „Ég get ekkert sagt um það á þessari stundu hvort ég verði með í næsta leik. Ég fer rakleitt í skoðun og síðan förum við aftur yfir stöðuna í fyrramálið. Vonandi er þetta ekki svo alvarlegt að ég geti ekki verið með í næstu leikjum. Þetta kemur allt betur í ljós á morgun," sagði Aron ennfremur.

Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. AFP

„Ég hef aðeins fundið fyrir í aftanverðu lærinu síðustu daga en þegar leikurinn hófst fann ég ekki fyrir neinu. Þegar komið var fram á tíundu eða tólfu mínútu í síðari hálfleik þá fékk ég skot í vöðvann og varð haltur. Þá var ekkert annað að gera en að fara út af og hleypa frískum manni inn á völlinn," sagði Arnór Þór við mbl.is og virtist ekki sérlega bjartsýnn á að leika með gegn Frökkum annað kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert