Óðinn er mættur á hótel landsliðsins

Óðinn Þór Ríkharðsson er kominn til móts við íslenska landsliðið …
Óðinn Þór Ríkharðsson er kominn til móts við íslenska landsliðið í Köln. mbl.is/Hari

Óðinn Þór Ríkharðsson, sem kallaður var inn í íslenska landsliðið í handknattleik í morgun, er kominn inn á hótel landsliðsins í Köln.  Hann fór með flugvél frá Kastrup í Kaupmannahöfn til flugvallarins í Bonn, í nágrenni Kölnar, hálfum öðrum tíma síðar eða svo. Afar heppilegt var að beint flug var frá Kastrup til Bonn í morgunsárið. 

Óðinn Þór hvílist nú á hótelinu og mun síðan taka til við undirbúning vegna landsleiksins við heimsmeistara Frakka í Lanxess-Arena í Köln í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan hálfníu.

Búningur með nafni Óðins er tilbúinn hjá liðsstjóra landsliðsins, Guðna Jónssyni. Samkvæmt upplýsingum mbl.is tók landsliðið með sér búningssett fyrir 25 mismunandi leikmenn á heimsmeistaramótið til að hafa vaðið fyrir neðan sig ef skipta þyrfti út leikmönnum með skömmum fyrirvara. 

Sama á við um búning Hauks Þrastarsonar sem kallaður var inn í liðið í morgun. Haukur fór hins vegar út með íslenska landsliðinu 9. janúar og hefur verið viðbragsstöðu að koma inn í liðið síðan HM hófst fyrir 10 dögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert