Var geggjað að koma inn á

Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson og Gísli Þorgeir Kristjánsson eru …
Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson og Gísli Þorgeir Kristjánsson eru meðal yngstu leikmanna landsliðsins og hafa fengið stór tækifæri á HM. mbl.is/Hari

„Að sjálfsögðu var gaman að koma inn á leikvöllinn í fyrri hálfleik. Það hefur lengi verið draumur minn að leika á heimsmeistaramóti í handbolta með landsliðinu og ekki var það verra að draumurinn rættist í leik á móti heimsmeisturunum. Það var geggjað að koma inn á,“ sagði handknattleiksmaðurinn ungi, Haukur Þrastarson frá Selfossi, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld eftir að hann hafði leikið stóran hluta leiksins við Frakka í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins. Haukur er aðeins 17 ára gamall og sá yngsti sem leikið hefur fyrir íslenska landsliðið á heimsmeistaramóti.

Haukur stýrði leik íslenska liðsins af festu og skoraði tvö mörk í þremur skotum, í 31:22, tapi íslenska landsliðsins.

„Mér gekk bara nokkuð vel og var öruggur með mig og leið vel. Hinsvegar er margt sem ég get gert betur,“ sagði Haukur af yfirvegun en innkoma hans í leikinn vakti mikla athygli. Vallarþulurinn kynnti Hauk sérstaklega fyrir áhorfendum þegar hann skoraði síðara mark sitt og mátti heyra klið fara um ríflega 18 þúsund áhorfendur þegar þulurinn sagði Selfyssinginn vera aðeins 17 ára gamlan.

Á tímabili í leiknum í gærkvöldi báru þrír frændur upp sóknarleik íslenska liðsins, Haukur, Elvar Örn Jónsson og Teitur Örn Einarsson. „Við þekkjumst vel. Fyrir utan að vera frændur þá lékum við saman með Selfoss-liðinu á síðasta keppnistímabili. Það hjálpar í svona leikjum að hafa menn með sér sem maður þekkir,“ sagði Haukur.

Nánar er rætt við Hauk og fjallað um leik Íslands og Frakklands í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka