Aron Pálmarsson landsliðsfyrirliði í handbolta er ekki með íslenska landsliðinu á HM í Egyptalandi vegna hnémeiðsla sem hann varð fyrir í leik með Barcelona fyrir áramót.
Tomas Svensson markvarðarþjálfari sagði í viðtali við Aftonbladet í gær að læknar íslenska landsliðsins hafi ekki einu sinni fengið að skoða Aron áður en ákvörðun var tekin um að hann yrði ekki með á mótinu. HSÍ sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið og sagði það ekki rétt og Aron tekur undir það.
„Þetta var náttúrulega mjög skrítið verð ég að segja að vakna við þetta í gær. Hann [Tomas Svensson] hringdi náttúrulega í mig um leið og baðst afsökunar. En ég auðvitað gekk á hann og spurði hann hvað honum gengi til. Í rauninni er það sem kemur út úr þessu að það var bara samskiptaleysi hjá þeim, þjálfurunum og innan HSÍ. Það er í rauninni ekkert gruggugt í gangi,“ sagði Aron við RÚV.