Ísland á ekki lengur möguleika á að fara í átta liða úrslit á HM karla í handbolta í Egyptalandi eftir 26:28-tap fyrir Frakklandi í öðrum leik í milliriðli í dag.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð vel spilaður hjá íslenska liðinu, þrátt fyrir að Frakkar væru með forskot í hálfleik, 16:14. Varnarleikurinn gekk ágætlega á köflum og hinum megin fékk íslenska liðið þónokkuð af hraðaupphlaupum sem enduðu með mörkum hjá Bjarka Má Elíssyni og Sigvalda Birni Guðjónssyni.
Bjarki skoraði sjö mörk í hálfleiknum og Sigvaldi þrjú. Gísli Þorgeir Kristjánsson átti svo góða kafla í sókninni. Björgvin Páll Gústavsson byrjaði ágætlega í markinu hjá íslenska liðinu en eftir um tíu mínútna kafla þar sem hann varði ekki kom Viktor Gísli Hallgrímsson inn í í markið. Viktor fór vel af stað og varði m.a. eitt víti.
Franska liðið átti hins vegar oft á tíðum auðvelt með að skapa sér fín færi í sókninni sem endaði með auðveldum mörkum. Vincent Gérard varði ágætlega í franska markinu og þá átti Ísland stundum erfitt með uppstilltan sóknarleik gegn góðri franskri vörn.
Ísland fór vel af stað í seinni hálfleik og jafnaði í 17:17 í upphafi hans. Viggó Kristjánsson byrjaði gífurlega vel í seinni hálfleik og skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum Íslands.
Ísland komst tveimur mörkum yfir snemma í seinni hálfleik, 20:18. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan hins vegar aftur orðin jöfn, 22:22 og í kjölfarið komust Frakkar yfir, 23:22. Ísland jafnaði í 23:23 og þannig var staðan þegar tíu mínútur voru eftir.
Frakkar voru sterkari á lokakaflanum og komust í 26:24 þegar skammt var eftir og tókst Íslandi ekki að jafna eftir það. Lokaleikur Íslands í milliriðli er gegn Norðmönnum á sunnudaginn kemur.