Sannfærandi ungverskur sigur í riðli Íslands

Zoltan Szita skýtur að marki Suður-Kóreu í kvöld.
Zoltan Szita skýtur að marki Suður-Kóreu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ungverjaland átti ekki í miklum vandræðum með að vinna Suður-Kóreu í fyrsta leik D-riðils Íslands á HM karla í handbolta í Svíþjóð og Póllandi í dag, en riðilinn er leikinn í Kristianstad í Svíþjóð. Urðu lokatölur 35:27. 

Eins og við var að búast fór ungverska liðið betur af stað og áttu Suður-Kóreumenn í erfiðleikum með að finna glufur á sterkri ungverskri vörn. Hinum megin áttu Ungverjar í minni vandræðum með að finna leiðir framhjá mjög framliggjandi vörn Suður-Kóreu.

Það gekk hins vegar illa fyrir Ungverja að hrista Suður-Kóremenn almennilega af sér framan af leik og var staðan 10:7 þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður.

Mate Lekai með boltann í kvöld. Seung Park er til …
Mate Lekai með boltann í kvöld. Seung Park er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá fóru Suður-Kóreumenn að gera sig seka um slæm mistök í sókninni og Ungverjar refsuðu hinum megin. Ungverjar bættu örugglega í forskotið eftir því sem leið á hálfleikinn og að lokum munaði tíu mörkum í hálfleik, 21:11.

Suður-Kóreumenn neituðu að gefast upp í seinni hálfleik og með fínni byrjun tókst Asíuþjóðinni að minnka muninn í sjö mörk, 25:18, þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður. Þá tóku Ungverjar leikhlé og náðu aftur meiri tökum á leiknum. Þegar rúmlega tíu mínútur voru eftir var staðan 28:19 og ljóst í hvað stefndi.

Seung Park og Jeongu Kang mættu ofjörlum sínum í kvöld.
Seung Park og Jeongu Kang mættu ofjörlum sínum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
Máté Lékai var markahæstur í ungverska liðinu með sjö mörk og Miklos Rosta og Pedro Rodríguez Álvarez komu næstir með fimm hvor. 

Seung Park, Taehyun Ha og Jeongu Kang skoruðu fimm hver fyrir Suður-Kóreu.

Þrátt fyrir að fjölmargir íslenskir stuðningsmenn hafi verið á bandi Suður-Kóreu í höllinni í Kristianstad, reyndist ungverska liðið einfaldlega of sterkt.

Ljóst er að Ísland á erfiðan leik fyrir höndum gegn Ungverjalandi, en ef allt er eðlilegt ætti Suður-Kórea ekki að vera mikil fyrirstaða fyrir Ísland í lokaleik riðilsins.

Adrian Sipos lætur finna fyrir sér í vörninni.
Adrian Sipos lætur finna fyrir sér í vörninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert