Í fimmta þætti af Sonum Íslands heimsækjum við handboltamanninn og landsliðsfyrirliðann Aron Pálmarsson, leikmann Aalborgar í Danmörku.
Aron, sem er 32 ára gamall, gekk til liðs við Aalborg sumarið 2021 eftir fjögur tímabil í herbúðum spænska stórliðsins Barcelona þar sem hann varð fjórum sinnum Spánarmeistari g einu sinni Evrópumeistari.
Aron er uppalinn í FH en hélt út í atvinnumennsku árið 2009 þegar hann samdi við þýska stórliðið Kiel þar sem hann varð fimm sinnum Þýskalandsmeistari og tvívegis Evrópumeistari.
Eftir sex tímabil í Þýskalandi lá leiðin til Veszprém í Ungverjalandi þar sem hann lék frá 20015 til 2017 en hann varð tvívegis ungverskur meistari með liðinu.
Aron lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Belgíu í undankeppni EM árið 2008 en alls á hann að baki 159 landsleiki þar sem hann hefur skorað 623 mörk. Hann er á leið á sitt þrettánda stórmót með landsliðinu.
Stórskyttan var útnefnd íþróttamaður ársins 2012 af samtökum íþróttafréttamanna og þá vann hann til bronsverðlauna með landsliðinu á EM í Austurríki árið 2010.