Aldrei upplifað svona stemningu hjá Íslendingum

Elliði Snær Viðarsson í loftfimleikum í gærkvöldi.
Elliði Snær Viðarsson í loftfimleikum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður mjög vel. Ég er ótrúlega spenntur fyrir morgundeginum,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, varnar- og línumaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins í keppnishöllinni í Kristianstad í Svíþjóð.

Ísland vann sætan 30:26-sigur á Portúgal í gær, fyrir framan stórkostlegan stuðning íslenskra áhorfenda. „Það tók smá tíma að sofna. Maður horfði á myndband af fólkinu syngja fyrir svefninn og það gekk verr að sofna eftir það.

Það var svakalegt í Ungverjalandi, fjöldinn þar, en ég hef aldrei upplifað svona stemningu hjá Íslendingum. Þetta var geðveikt,“ sagði Elliði.

Elliði Snær átti góðan leik í gær.
Elliði Snær átti góðan leik í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann skoraði mark frá miðju undir lok leiksins, þegar spennan var afar mikil. Elliði viðurkenndi að boltinn væri stundum svolítið lengi á leiðinni í markið þegar hann tekur langskotin, en hann tók þau nokkur á EM í fyrra.

„Þegar hann er kominn inn, þá líður mér mjög vel. Mér finnst hann samt stoppa stundum í loftinu. Ég var nokkuð viss um að hann væri inni, en það er eins og þetta líði aðeins hægar,“ sagði Eyjamaðurinn.

Vörn íslenska liðsins var nokkuð gagnrýnd eftir leikina tvo við Þýskaland í aðdraganda mótsins, en fékk mikið lof fyrir leikinn í gærkvöldi.

Elliði Snær stendur í ströngu í vörninni í gær.
Elliði Snær stendur í ströngu í vörninni í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er komið meira traust. Við vitum hvenær við eigum að sleppa og hvenær að hjálpa. Ef vörnin verður aftur léleg á morgun verður hún mikið gagnrýnd,“ sagði hann.

Elliði segir ekki mikið mál að komast niður á jörðina og gíra sig í annan afar mikilvægan leik. „Það verður ekkert mál. Það er mikið undir og þegar það er svona mikið af fólki hérna er auðveldara að gíra sig upp.“

Ísland vann nauman eins marks sigur á Ungverjalandi í Búdapest á EM í fyrra og Elliði á von á öðrum spennandi leik. „Ég geri ráð fyrir því. Þeir eru stórir, sterkir og vilja berjast. Þeir hafa pottþétt harma að hafna frá því í fyrra, þegar þeir töpuðu á heimavelli. Þeir koma pottþétt brjálaðir inn í þetta og við gerum það líka. Þetta verður hörkuleikur,“ sagði Elliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert