Markvörðurinn brýtur okkur

Elliði Snær sár og svekktur í leikslok.
Elliði Snær sár og svekktur í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

 „Við förum með dauðafæri og töpum mörgum boltum í lokin. Við brotum svolítið þar. Markvörðurinn brýtur okkur hægt og rólega niður,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, varnar- og línumaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is.

Elliði var eins og aðrir Íslendingar sár eftir 28:30-tapið gegn Ungverjalandi á HM í kvöld. Þrátt fyrir að Ísland hafi átt hræðilegan kafla í lokin, leið Elliða ekki illa á vellinum.

„Það er ekkert slæmt. Ég missti aldrei trúna og mér leið alltaf eins og við værum að fara að klára þetta. En svo var tíminn okkar versti óvinur undir lokin.“

Elliði gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leik.
Elliði gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elliði sagði íslenska liðið alls ekki hafa farið að verja forskotið sitt. „Nei, við vorum að fá dauðafæri eftir dauðafæri og við höldum áfram að keyra allan leikinn. Við erum aldrei að verkja neitt, heldur ætluðum við að sækja til sigurs.“

En hvernig jafnar maður sig eftir högg sem þetta?

„Það er bara sama sagan. Við endurheimtum og svo er rólegur dagur á morgun. Við horfum aftur á leikinn og reynum að greina hvar við gerum mistök.

Við erum með svolítið af tæknifeilum sem þarf að skoða líka. Við fínpússum það og undirbúum okkur svo fyrir erfiðan leik á móti Suður-Kóreu. Þeir stóðu vel í Portúgölunum og við verðum að gefa okkur alla í það,“ sagði Eyjamaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka