Við erum tilfinningaverur

Gísli Þorgeir Kristjánsson fylgist með landsliðsþjálfaranum sínum í viðtali í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson fylgist með landsliðsþjálfaranum sínum í viðtali í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er nóg að gera hjá landsliðsþjálfaranum Guðmundi Guðmundssyni á HM karla í handbolta. Guðmundur náði lítið að sofa eftir tapið gegn Ungverjalandi í gærkvöldi.

„Það var eiginlega enginn svefn hjá mér í nótt. Maður fer bara yfir þetta. Við erum tilfinningaverur og við erum kröfuharðir á okkur sjálfa. Við förum vel yfir þetta. Við vorum sjálfir okkur verstir í þessum leik,“ sagði Guðmundur fyrir æfingu liðsins í keppnishöllinni í dag.

Á meðal þess sem liðið gerði á æfingunni í dag var að fara yfir lið Suður-Kóreu, en Ísland mætir Asíuþjóðinni í síðasta leik sínum í D-riðli á morgun. Suður-Kórea hefur tapað báðum leikjum sínum á mótinu til þessa.

„Þetta er þannig lið að ef þú mætir ekki klár í slaginn, þá færðu erfiðan leik. Það er mín reynsla af svona liðum. Þú verður að vera rosalega einbeittur, byrja þetta af fullu og taka þessu alvarlega. Þessi leikur fyrir okkur er mjög mikilvægur,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert