„Ég spilaði fótbolta þegar að ég var 14 ára,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í Sonum Íslands, vefþætti mbl.is sem framleiddur er af Studio M.
Sigvaldi, sem er 28 ára gamall, flutti ungur að árum til Danmerkur ásamt foreldrum sínum en hann valdi handboltann fram yfir fótboltann á sínum tíma.
„Ég þurfti að velja á milli fótboltans og handboltans,“ sagði Sigvaldi.
„Við vorum tveir félagar sem þurftum að færa okkur á milli liða í handboltanum en hefði ég valið fótboltann hefði ég þurft að ferðast einn á æfingar.
„Það var smá strætóferð á æfingu þannig að við enduðum á að velja handboltann,“ bætti Sigvaldi við.