Fer ekki að væla núna

Björgvin Páll var fyrirliði í gær í fjarveru Arons Pálmarssonar.
Björgvin Páll var fyrirliði í gær í fjarveru Arons Pálmarssonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, viðurkenndi í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í dag að nóttin hafi verið erfið eftir tapið gegn Svíþjóð í milliriðli á HM í Gautaborg í gærkvöldi.

„Þetta var erfitt. Maður svaf aðeins lengur. Maður er enn að jafna sig eftir gærdaginn. Það er ekkert svo auðvelt að ná þessu úr sér. Við erum staðráðnir í að ná þessu úr okkur og skila tveimur stigum í síðasta leiknum, fyrir fólkið sem kom með okkur út,“ sagði Björgvin.

Þrátt fyrir að vera á útivelli, var stuðningur íslenska liðsins stórkostlegur og gaf mun fleiri stuðningsmönnum Svíþjóðar lítið eftir.

Björgvin Páll ræðir við mbl.is í dag.
Björgvin Páll ræðir við mbl.is í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var sturlað að heyra þjóðsönginn eins og hann var. Þetta voru 3-4.000 manns í stúkunni sem lét vel í sér heyra. Það er ekki til höll sem rúmar þetta fólk sem mætti til Gautaborgar. Það var magnað að vera á útivelli en líða eins og þú sért á heimavelli stóran hluta leiksins.“

Björgvin hefur verið að glíma við meiðsli í baki, en hann ætlar ekki að kvarta fyrir síðasta leikinn á stórmóti, þar sem íslenskir stuðningsmenn hafa verið stórkostlegir.

„Ég er flottur, maður fer ekki að væla núna, með höll fulla af Íslendingum. Við ætlum okkur bara að sigra Brasilíu á morgun,“ sagði Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert