„Hann var mjög ákveðinn og það þurfti að hafa mikið fyrir honum,“ sagði Kristján Arason, faðir Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, leikmanns íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í Sonum Íslands, vefþætti mbl.is.
Gísli Þorgeir, sem er 23 ára gamall, er uppalinn hjá FH í Hafnarfirði en hann hélt út í atvinnumennsku ungur að árum þegar hann samdi við stórlið Kiel í Þýskalandi.
„Hans annað heimili var Kaplakriki og hann var bara þar þangað til hann var rekinn út klukkan 23 á kvöldin, sex ára gamall,“ sagði Kristján.
„Hann var skemmtilegt og kröftugt barn. Fimm til sex ára var hann strax byrjaður að rífa kjaft,“ bætti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, móðir hans, við.