Norrænt HM að hefjast

Andrea Jacobsen, Sunna Jónsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir …
Andrea Jacobsen, Sunna Jónsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir í leik Íslands gegn Noregi um liðna helgi. Ljósmynd/Jon Forberg

Heimsmeistaramót kvenna í handbolta verður haldið í 26. skipti er keppnin fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Hefst mótið á morgun, 29. nóvember, og lýkur með úrslitaleik í Herning 17. desember.

Mótið hefur áður verið haldið í Noregi og Danmörku, en Svíþjóð er á meðal gestgjafa í fyrsta skipti. Þá eru þrír gestgjafar í fyrsta skipti á lokamóti HM kvenna.

Er um annað heimsmeistaramótið að ræða þar sem þátttökuþjóðirnar eru 32, en þær voru 24 á tólf mótum í röð, eða allt þar til á Spáni fyrir tveimur árum. Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, er ríkjandi heimsmeistari, en norska liðið vann það franska í úrslitaleik 2021.

Leikið er í átta fjögurra liða riðlum. Fara þrjú lið áfram í millriðla, samtals 24 lið, en eitt úr hverjum riðli fer í forsetabikarinn, sem er keppni um 25.-32. sæti.

C-riðill í Stafangri

Mikil pressa er á ríkjandi heimsog Evrópumeisturum Noregs. Liðið á að fara auðveldlega í gegnum C-riðil gegn Suður-Kóreu, Grænlandi og Austurríki. Þórir Hergeirsson stýrir norska liðinu enn einu sinni á stórmóti, en hann hefur náð einstökum árangri og unnið með því níu gullverðlaun á stórmótum.

Suður-Kórea varð ólympíumeistari 1988 og 1992 og heimsmeistari 1995. Liðið er hins vegar ekki á sama stalli í dag og náði síðast einu af tíu efstu sætunum á HM árið 2009.

Það er gaman að sjá Grænland á stórmóti í annað sinn í sögunni, en liðið varð í neðsta sæti á HM 2001 á Ítalíu. Austurríki lenti í þriðja sæti á HM 1999, einmitt í Danmörku og Noregi. Liðið þurfti hins vegar boðssæti á mótið, rétt eins og Ísland

D-riðill í Stafangri

Ólympíumeistarar Frakka eru sigurstranglegastir í D-riðli Íslands, en Frakkland hefur í tvígang orðið heimsmeistari og einu sinni Evrópumeistari. Slóvenía er ekki á sama stalli en hefur samt sem áður ekki misst af stórmóti frá 2016.

Angóla hefur verið með á hverju einasta HM frá 1990 og er í fremstu röð í Afríku. Liðið fór alla leið í átta liða úrslit í Brasilíu 2011 og vann m.a. Ísland þar. Liðið hefur hins vegar ekki komist í milliriðla frá 2015 og ætti að vera það lið sem Ísland á mesta möguleika gegn.

Ísland er með á stórmóti í fyrsta skipti frá árinu 2012 og þurfti boðssæti til að komast á mótið. Það er ekki mikil pressa á liðinu, en það ætti að eiga möguleika á móti Angóla og einn sigur ætti að duga til að komast í milliriðil.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert