Sandra Erlingsdóttir, ein af þremur fyrirliðum Íslands á HM í handbolta, er spennt fyrir heimsmeistaramótinu sem hefst á morgun. Mótið verður það fyrsta sem hún tekur þátt í, en Ísland hefur leik á fimmtudag gegn Slóveníu í D-riðli.
Fyrir mótið var skipað svokallað fyrirliðateymi íslenska liðsins, en í því er Sandra, auk Sunnu Jónsdóttur og Þóreyju Rósu Stefánsdóttur. Aðeins Sunna og Þórey Rósa hafa áður spilað á stórmóti af þeim sem eru í íslenska hópnum á mótinu.
Sandra ræddi við mbl.is fyrir æfingu íslenska liðsins í Stafangri í Noregi í dag, en fyrsti leikur Íslands er gegn Slóveníu á fimmtudag.
„Það er ótrúlega mikill spenningur. Þetta er rosalega góður hópur og við náum ótrúlega vel saman. Það er skemmtilegt hjá okkur og mikil stemning. Við erum allar á mjög góðum stað,“ sagði Sandra, sem er í lengsta landsliðsverkefni ferilsins núna.
„Þetta hefur yfirleitt verið stutt og núna mun reyna á okkur. Við erum búnar að vera saman í rúma sex daga og eigum marga daga fram undan saman. Þetta verður bara skemmtilegt,“ sagði Sandra.