Sigurleikirnir í Brasilíu

Stuðningsmenn Íslands á leik Noregs og Íslands um liðna helgi.
Stuðningsmenn Íslands á leik Noregs og Íslands um liðna helgi. Ljósmynd/Jon Forberg

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta leikur á sínu fjórða stórmóti, lokamóti HM, sem hefst með þremur leikjum í C- og G-riðli á morgun. Eins og fram kemur á bls. 26 fer mótið fram í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. D-riðill Íslands er leikinn í Stafangri í Noregi og þrjú efstu liðin fara í milliriðil í Þrándheimi.

Mótið er það fyrsta hjá íslenska liðinu frá því það fór á þrjú stórmót í röð frá 2010 til 2012. Ísland hafnaði í 15. sæti á EM 2010 í Noregi og Danmörku og aftur 2012 í Serbíu. Besti árangurinn náðist á HM í Brasilíu 2011, þar sem Ísland hafnaði í 12. sæti. Íslenska liðið sló þar í gegn með glæsilegum sigrum á Svartfjallalandi og Þýskalandi.

Fyrsta mótið

Ísland kom sér inn á EM 2010, sitt fyrsta stórmót, með því að lenda í öðru sæti í undanriðli. Frakkland, Austurríki og Bretland voru einnig í riðlinum. Tveir sigrar á Bretlandi og heimasigur á Austurríki, 29:25, gerði það að verkum að tap á útivelli gegn Austurríki í Stockerau, 26:23, kom ekki að sök.

„Þær eru hetjur og eiga virkilegt hrós skilið fyrir hversu fagmannlegar þær hafa verið við alla vinnu með landsliðinu síðustu vikur og mánuði. Þær stóðust öll áhlaupin og stóðu uppi sem sigurvegarar,“ sagði þáverandi landsliðsþjálfari, Júlíus Jónasson, við Morgunblaðið.

„Með markvissum vinnubrögðum þeirra sem að landsliðinu standa, innan vallar sem utan, og bættum vinnubrögðum hjá félögum hefur allt lagst á eitt þannig að nú hefur draumurinn orðið að veruleika,“ skrifaði Ívar Benediktsson m.a. í Morgunblaðið.

Hanna Guðrún Stefánsdóttir fór á kostum í undankeppninni, skoraði 14 mörk í útileiknum við Bretland, 17 í heimaleiknum og svo 13 í naumu tapi gegn Frökkum, 27:24. „Langþráðum áfanga er náð. Maður hefur varla áttað sig á því enn þá,“ sagði hún m.a. við Morgunblaðið.

Brasilía eftirminnileg

Frumraun Íslands á heimsmeistaramóti átti vægast sagt eftir að verða eftirminnileg, því íslenska liðið gerði sér lítið fyrir og vann sigur á Svartfjallalandi, 22:21, í fyrsta leik í Santos. Áttu fáir von á miklu frá íslenska liðinu gegn einu sterkasta liði Evrópu. Þá var hin stórkostlega Bojana Popovic í aðalhlutverki hjá Svartfjallalandi, en hún er af mörgum talin einn besti leikmaður sögunnar. Íslenska liðið lék hins vegar einn sinn besta landsleik frá upphafi og skákaði Popovic og stöllum. Karen Knútsdóttir var markahæst með sex mörk.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert