Selfyssingurinn Katla María Magnúsdóttir er óvænt mætt á sitt fyrsta stórmót í handbolta, en hún var ekki í upprunalega hóp landsliðsþjálfarans Arnars Péturssonar fyrir HM sem hefst á morgun.
Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir meiddist hins vegar skömmu fyrir mót og Katla kölluð inn í hópinn í hennar stað með ansi litlum fyrirvara.
„Þetta gerðist allt mjög fljótt og ég get ekki sagt að ég hafi átt von á þessu. Það er ótrúlega mikill missir af Elínu Klöru. Hún hefur verið besti leikmaður deildarinnar heima.
Það kemur maður í manns stað og ég er ótrúlega þakklát fyrir að fá að taka þetta skref og fá að taka þátt í þessu verkefni,“ sagði Katla við mbl.is fyrir æfingu íslenska liðsins í Stafangri í Noregi í dag.
„Ég var heima að búa mér til hádegismat og Arnar hringi í mig. Hann spurði mig hvort ég vildi koma á æfingu eftir einn og hálfan tíma. Ég þurfti að bruna frá Selfossi og pakka öllu á hálftíma.
Ég þurfti nokkra klukkutíma til að meðtaka þetta, en þetta var ótrúleg hamingja og stórt fyrir mig. Þetta hefur verið draumur hjá mér ótrúlega lengi. Fyrstu viðbrögðin voru að hringja í þjálfarann minn að láta hann vita af þessu,“ sagði Katla María.