Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætti í gær til Stafangurs í Noregi, þar sem liðið leikur í D-riðli á lokamóti HM. Er mótið fyrsta lokamót íslenska liðsins frá því á Evrópumótinu árið 2012 og fyrsta heimsmeistaramótið frá því í Brasilíu 2011.
Íslenska liðið lék á alþjóðlega Posten Cup-mótinu í Lillehammer og Hamri í Noregi í síðustu viku í undirbúningi fyrir HM. Lék Ísland þar við Pólland, Noreg og Angóla. Þrátt fyrir þrjú töp var Eyjakonan Díana Dögg Magnúsdóttir ánægð með ýmislegt úr því verkefni, þar sem íslenska liðið átti sína spretti.
„Þessir leikir gáfu okkur ansi margt. Þessi fyrsti skrekkur er farinn úr liðinu. Auðvitað er margt sem við getum bætt, sem við ætlum okkur að gera,“ sagði Díana í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska liðsins í Stafangri í gær. Ísland er með Frakklandi, Slóveníu og Angóla í D-riðli á HM og því stutt í annan og mun mikilvægari leik gegn Afríkuþjóðinni.
„Það var gott að mæta Angóla, sem er öðruvísi lið, og finna taktinn hjá þeim. Það mun gagnast okkur í framhaldinu,“ sagði Díana. Angóla vann 27:24-sigur í Lillehammer en Íslenska liðið hefði hæglega getað náð í betri úrslit í þeim leik, þar sem munurinn á liðunum var lítill. Ættu möguleikarnir því að vera fínir fyrir leik liðanna á HM, sem gæti verið úrslitaleikur um sæti í milliriðli.
„Mér fannst við geta gert margt miklu betur í vörn og sókn. Við gerum það í næsta leik á móti þeim og við ætlum að gera þetta vel,“ sagði Díana.
Viðtalið við Díönu má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.