Ótrúlega skemmtilegt að máta sig við svona góð lið

Sandra Erlingsdóttir er mætt á sitt fyrsta stórmót.
Sandra Erlingsdóttir er mætt á sitt fyrsta stórmót. Ljósmynd/Jon Forberg

Eyjakonan Sandra Erlingsdóttir, ein af þremur fyrirliðum íslenska kvennalandsliðsins í handbolta á lokamóti HM, er brött fyrir þátttöku Íslands á mótinu, sem er fyrsta stórmót íslenska liðsins frá árinu 2012.

Ísland hitaði upp fyrir mótið með því að leika við Noreg, Angóla og Pólland á Posten Cup í Lillehammer og Hamri í Noregi. Þrátt fyrir þrjú töp sá Sandra ýmislegt jákvætt í þeim leikjum.

„Það var ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að fá þessa leiki. Þeir voru mjög erfiðir og krefjandi. Við erum viss um að þeir muni styrkja okkur fyrir næsta verkefni.

Sandra Erlingsdóttir í leik gegn Angóla á Posten Cup fyrir …
Sandra Erlingsdóttir í leik gegn Angóla á Posten Cup fyrir HM. Ljósmynd/Jon Forberg

Þetta var skemmtileg áskorun, en á sama tíma krefjandi. Það er ótrúlega skemmtilegt að máta sig við svona góð lið,“ sagði Sandra í samtali við mbl.is fyrir æfingu íslenska liðsins í Stafangri í gær.

Ísland mætir Angóla í lokaleik D-riðils á HM, sem gæti verið úrslitaleikur um sæti í milliriðli. Angóla vann leik liðanna á Posten Cup með þremur mörkum, en íslenska liðið hefði hæglega getað unnið þann leik.

„Við erum ekki mikið að pæla í niðurstöðunni úr þeim leik. Það var mikill æfingaleikjabragur yfir honum. Við vorum að prófa margt nýtt og við horfum ekki of mikið á þann leik. Það var samt frábært að fá að spila hann og það var gott að átta sig aðeins á þeim, því þær spila öðruvísi handbolta.

Sandra Erlingsdóttir
Sandra Erlingsdóttir Ljósmynd/Jon Forberg

Það er fullt af möguleikum á móti þeim. Við áttum frekar slakan leik og eigum mikið inni. Þetta verður mjög spennandi leikur á móti þeim,“ sagði Sandra.

Ísland byrjar lokamót HM með leik gegn Slóveníu á morgun og á Sandra von á erfiðum leik, en sér samt möguleika fyrir íslenska liðið. „Þær eru með mjög sterka leikmenn, en samt er þetta lið sem við getum strítt. Þær eru með stóra og sterka leikmenn. Það verður gaman að stríða þeim og við eigum að eiga séns í þær,“ sagði Sandra Erlingsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert