Brasilía og Spánn ættu að vera með nokkra yfirburði í G-riðli á HM kvenna í handbolta, en riðilinn er leikinn í Fredrikshavn í Danmörku. Úkraína gæti gefið áðurnefndum liðum góða leiki.
Kasakstan er áberandi slakasta liðið í riðlinum. Það verður mjög spennandi að sjá Brasilíu og Spán mætast, í leik tveggja gríðarlega sterkra liða.
Brasilía er sterkasta þjóðin utan Evrópu um þessar mundir. Liðið varð heimsmeistari árið 2013 og fór í átta liða úrslit á Spáni fyrir tveimur árum. Ísland á góðar minningar þegar kemur að handbolta í Brasilíu, því íslenska liðið átti glæsilegt mót þegar HM var haldið þar í landi árið 2011. Brasilía á fína möguleika á að fara langt á þessu móti.
Fyrri HM: 1995: 17. sæti, 1997: 23. sæti, 2001: 12. sæti, 2003: 20. sæti, 2005: 7. sæti, 2007: 14. sæti, 2009: 15. sæti, 2011: 5. sæti, 2013: 1. sæti, 2015: 10. sæti, 2017: 18. sæti, 2019: 17. sæti, 2021: 6. sæti.
Besti árangur: Heimsmeistari árið 2013.
Þjálfari: Cristiano Silva.
Leiðin á HM: Sigurvegari Mið- og Suður-Ameríkumótsins.
Fyrirliði: Bárbara Arenhart (RK Krim).
Markahæst í HM-hópnum: Ana Paula Belo (AC Erice), 806 mörk í 230 leikjum.
Leikjahæst í HM-hópnum: Ana Paula Belo.
Leikmenn til að fylgjast með: Bruna de Paula Almeida, Barbara Arenhart, Tamires Morena.
Spænska liðið hefur komist í undanúrslit síðustu tvö heimsmeistaramót. Varð liðið í öðru sæti í Japan árið 2019 og í fjórða sæti á heimavelli fyrir tveimur árum. Spænska liðið hefur hins vegar aldrei unnið stórmót, en komist liðið aftur í undanúrslit er alltaf möguleiki til að breyta því.
Fyrri HM: 1993: 15. sæti, 2001: 10. sæti, 2003: 5. sæti, 2007: 10. sæti, 2009: 4. sæti, 2011: 3. sæti, 2013: 9. sæti, 2015: 12. sæti, 2017: 11. sæti, 2019: 2. sæti, 2021 4. sæti.
Besti árangur: Annað sæti árið 2019.
Þjálfari: Ambros Martín.
Leiðin á HM: Sigur á Austurríki í umspili.
Fyrirliði: Lara Ortega (CS Rapid Búkarest).
Markahæst í HM-hópnum: Alexandrina Cabral (Brest), 633 mörk í 136 leikjum.
Leikjahæst í HM-hópnum: Lara Ortega, 160 leikir.
Leikmenn til að fylgjast með: Alexandrina Cabral Barbosa, Paula Arcos, Jennifer Gutíerrez.
Úkraínska liðið var mjög gott í kringum aldamótin. Liðið endaði í öðru sæti á EM árið 2000 og nældi í brons á sínum einu Ólympíuleikum í Aþenu árið 2004. Síðan þá hefur verið lægð hjá úkraínska liðinu, því heimsmeistaramótið í ár er það fyrsta frá árinu 2009. Úkraína komst á HM með því að sigra Norður-Makedóníu í umspilinu. Úkraínska liðið er líklegt til að ná þriðja sæti og fara áfram í milliriðil.
Fyrri HM: 1995: 9. sæti, 1999: 13. sæti, 2001: 18. sæti, 2003: 4. sæti, 2005: 10. sæti, 2007: 13. sæti, 2009: 17. sæti.
Besti árangur: Fjórða sæti árið 2003.
Þjálfari: Borys Chizhov.
Leiðin á HM: Sigur á Norður-Makedóníu í umspili.
Fyrirliði: Yudit Baloh (Vasas).
Markahæst í HM-hópnum: Upplýsingar ekki aðgengilegar.
Leikjahæst í HM-hópnum: Yudit Baloh, 25 leikir.
Leikmenn til að fylgjast með: Maria Gladun, Diana Dmytryshyn, Yevheniia Levchenko.
Kasakstan er með á HM í þriðja skipti í röð, en liðið endaði í 24. sæti á Spáni fyrir tveimur árum. Þá voru Kasakar heppnari með riðil, því liðið þurfti aðeins að vinna Íran til að fara áfram í milliriðla. Riðilinn í ár er væntanlega of sterkur til að liðið geti endurtekið leikinn.
Fyrri HM: 2007: 18. sæti, 2009: 22. sæti, 2011: 19. sæti, 2015: 22. sæti, 2019: 22. sæti, 2021: 24. sæti.
Besti árangur: 18. sæti árið 2007.
Þjálfari: Lyazzat Ishanova.
Leiðin á HM: 5. sæti á Asíumótinu.
Fyrirliði: Iulia Poilova (Dostyk).
Markahæst í HM-hópnum: Irina Alexandrova (Dostyk), 866 mörk í 183 leikjum.
Leikjahæst í HM-hópnum: Irina Alexandrova.
Leikmenn til að fylgjast með: Veronika Kardina, Dana Abilda, Tansholpan Jumadilova.