Þórir Hergeirsson og lærisveinar hans í norska kvennalandsliðinu í handknattleik fara vel af stað á heimsmeistaramótinu sem hófst í dag en Noregur á titil að verja á mótinu.
Noregur vann stórsigur gegn Grænlandi, 43:11, í C-riðli keppninnar í Stavanger í Noregi þar sem Camilla Herrem var markahæst með sjö mörk.
Leikurinn var aldrei spennandi en Norðmenn leiddu með 12 mörkum í hálfleik, 19:7.
Stine Skogrand skoraði sex mörk fyrir Noreg og þær Kristina Novak og Maja Sæteren fimm mörk hvor.
Noregur er með tvö stig í efsta sæti riðilsins líkt og Austurríki sem vann Suður-Kóreu fyrr í dag.
Þá vann Spánn stórsigur gegn Kasakstan í G-riðli keppninnar í Fredrikshavn í Danmörku, 34:17.
Maitene Martínez, Kaba Cissokho og Mireya Álvarez skoruðu fimm mörk hver fyrir Spánverja sem eru með 2 stig í efsta sæti G-riðils, líkt og Brasilía sem vann 35:20-sigur gegn Úkraínu fyrr í dag.