Allt um D-riðil Íslands

Ísland og Angóla eru bæði í D-riðli.
Ísland og Angóla eru bæði í D-riðli. Ljósmynd/Jon Forberg

D-riðilinn á heimsmeistaramóti kvennna í handbolta verður ansi krefjandi verkefni fyrir íslenska liðið, sem er komið aftur á stóra sviðið. Ólympíumeistarar Frakklands eru gríðarlega sterkir og ættu að vinna þennan riðil nokkuð sannfærandi.

Slóvenía endaði í áttunda sæti á EM í fyrra og er fastagestur á heimsmeistaramótum, eins og Angóla. Angóla vann Ísland á HM 2011, eina HM íslenska liðsins til þessa. Þá vann Angóla 27:24-sigur á Íslandi þegar liðin mættust í Posten Cup á sunnudag. Á góðum degi getur Ísland hins vegar alveg strítt Slóveníu og unnið Angóla. Það eru möguleikar fyrir Ísland í þessum riðli.

Frakkland er ríkjandi Ólympímeistari.
Frakkland er ríkjandi Ólympímeistari. Ljósmynd/IHF

Frakkland

Franska liðið hefur náð í verðlaun á þremur af síðustu fjórum Evrópumótum, er ríkjandi Evrópumeistari og lenti í öðru sæti á síðasta HM. Franska liðið er í allra fremstu röð og gríðarlega sterkt. Frakkar ætla sér verðlaun á þessu móti og það er raunhæft markmið. Liðin mættust síðast í undankeppni EM 2019 og vann Frakkland þá sannfærandi sigur, eins og iðulega þegar Frakkland og Ísland mætast.

Fyrri HM: 1986: 15. sæti, 1990: 14. sæti, 1997: 10. sæti, 1999: 2. sæti, 2001: 5. sæti, 2003: 1. sæti, 2005: 12. sæti, 2007: 5. sæti, 2009: 2. sæti, 2011: 2. sæti, 2013: 6. sæti, 2015: 7. sæti, 2017: 1. sæti, 2019: 13. sæti, 2021: 2. sæti.

Besti árangur: Heimsmeistari 2003 og 2017.

Þjálfari: Olivier Krumbholz

Leiðin á HM: Fjórða sæti á EM.

Fyrirliði: Estelle Nze Minko (Győri)

Markahæst í HM-hópnum: Estelle Nze Minko, 381 mark í 165 leikjum.

Leikjahæst í HM-hópnum: Grâce Zaadi (CSM Búkarest) 168 leikir.

Leikmenn til að fylgjast með: Chloé Valentini, Pauletta Foppa, Estelle Nze Minko.

Slóvenía er reglurlegur gestur á stórmótum.
Slóvenía er reglurlegur gestur á stórmótum. Ljósmynd/IHF

Slóvenía

Slóvenía er með á HM í fjórða skipti í röð, eftir að hafa ekki komist á mótið frá 2005 til 2017. Liðið náði sínum besta árangri frá upphafi á EM í fyrra er það varð í áttunda sæti og er Slóvenía því á góðum stað í dag. Slóvenía og Ísland mættust í umspili um sæti á HM á Spáni fyrir tveimur árum. Slóvenía vann auðveldan 24:14-heimasigur, en liðin skildu jöfn, 21:21, á Íslandi. Þau gerðu það einnig á Íslandi í undankeppni EM árið 2018. Ísland hefur því leikið tvo leiki við Slóveníu á undanförnum árum og ekki tapað. Ana Gros er besti leikmaður Slóveníu og þarf að hafa gætur á henni.

Fyrri HM: 1997: 18. sæti, 2001: 9. sæti, 2003: 8. sæti, 2005: 14. sæti, 2017: 14. sæti, 2019: 19. sæti, 2021: 17. sæti.

Besti árangur: 8. sæti árið 2003.

Þjálfari: Dragan Adžić

Leiðin á HM: Sigur á Ítalíu í umspili.

Fyrirliði: Ana Gros (Győri)

Markahæst í HM-hópnum: Ana Gros, 703 mörk í 140 landsleikjum.

Leikjahæst í HM-hópnum: Ana Gros.

Leikmenn til að fylgjast með: Ana Gros, Tjasa Stanko, Tamara Mavsar, Alja Varagic.

Angóla er Afríkumeistari.
Angóla er Afríkumeistari. Ljósmynd/IHF

Angóla

Angóla er í fremstu röð í Afríku og hefur orðið Afríkumeistari sex sinnum frá árinu 2010 og ellefu sinnum frá aldamótum. Angóla hefur ekki komist í milliriðla á þremur síðustu mótum, en komst í átta liða úrslit árið 2007 og 2011. Liðið er ekki á þeim stalli í dag það gæti orðið úrslitaleikur um sæti í milliriðlum í lokaleik riðilsins á milli Angóla og Íslands. Íslenska liðinu gekk frekar illa að ráða við Albertinu Kassoma á Posten Cup og þarf að hafa gætur á henni.

Fyrri HM: 1990: 16. sæti, 1993: 16. sæti, 1995: 16. sæti, 1997: 15. sæti, 1999: 15. sæti, 2001: 13. sæti, 2003: 17. sæti, 2005: 16. sæti, 2007: 7. sæti, 2009: 11. sæti, 2011: 8. sæti, 2013: 16. sæti, 2015: 15. sæti, 2017: 19. sæti, 2019: 15. sæti, 2021: 25. sæti.

Besti árangur: Sjöunda sæti árið 2007.

Þjálfari: Filipe Cruz

Leiðin á HM: Sigur á Afríkumótinu.

Fyrirliði: Wuta Dombaxe (Corona Brasov)

Markahæst í HM-hópnum: Isabel Guialo (Primeiro de Agosto), 292 mörk í 91 leik.

Leikjahæst í HM-hópnum: Natália Santos (Primeiro de Agosto), 289 leikir.

Leikmenn til að fylgjast með: Azenaide Carlos, Albertina Kassoma, Isabel Guialo.

Ísland er með á HM í annað skipti.
Ísland er með á HM í annað skipti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland

Íslenska liðið er loksins komið á stórmót aftur, eftir rúma áratuga fjarveru. Liðið hefur verið í ákveðinni uppbyggingu undanfarin ár og var markið sett á að komast á stórmót, sem hefur nú tekist. Íslenska liðið er eflaust á undan áætlun í þeim efnum, þar sem það fékk óvænt boðssæti á heimsmeistaramótið, eftir tap gegn Ungverjalandi í umspili. Það er ekki mikil pressa á ungu og óreyndu íslensku liði á þessu móti, en samt sem áður eru möguleikar til staðar til að komast í milliriðil. Þetta er vonandi byrjunin á einhverju mjög góðu hjá þessu liði.

Fyrri HM: 2011: 12. sæti.

Besti árangur: 12. sæti, 2011.

Þjálfari: Arnar Pétursson

Leið á HM: Boðssæti.

Fyrirliði: Sunna Jónsdóttir (ÍBV)

Markahæst í HM-hópnum: Þórey Rósa Stefánsdóttir (Fram), 351 mark í 126 leikjum.

Leikjahæst í HM-hópnum: Þórey Rósa Stefánsdóttir

Leikmenn til að fylgjast með að mati IHF: Sandra Erlingsdóttir, Andrea Jacobsen, Thea Imani Sturludóttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert