Frakkar lentu í gríðarlegum vandræðum með lið Angóla í D-riðli heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í Stafangri í Noregi í kvöld en Ísland mætir þessum þjóðum á laugardag og mánudag.
Frakkar höfðu að lokum betur eftir mikla spennu, 30:29. Angóla komst tvisvar þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik en Frakkar náðu að snúa því við og voru með forystu í leikhléi, 18:15. Eftir að Frakkar komust í 20:16 minnkaði Angóla muninn í eitt mark, 21:20.
Franska liðið gaf í og var komið í 27:22 en Afríkukonurnar neituðu að gefast upp og jöfnuðu metin, 28:28, þegar tvær mínútur voru eftir. Aftur 29:29, tæpri mínútu fyrir leikslok.
Laura Flippes kom Frökkum í 30:29 þegar hálf mínúta var eftir. Angólakonur fengu dauðafæri í síðustu sókninni, manni fleiri, en áttu stangarskot á lokasekúndunni.
Frakkland og Slóvenía eru því með tvö stig hvort en Ísland og Angóla eru án stiga. Á laugardag mætast Ísland - Frakkland og Slóvenía - Angóla en í lokaumferðinni á mánudag leikur Ísland við Angóla og Frakkland við Slóveníu. Þrjú efstu liðin komast í milliriðil í Þrándheimi en neðsta liðið fer til Frederikshavn í Danmörku og spilar þar um Forsetabikarinn.
Hinir leikir kvöldsins á heimsmeistaramótinu voru ekki spennandi. Ungverjaland vann Paragvæ auðveldlega í B-riðli, 35:12, Pólland vann Íran í F-riðli, 35:15, og Tékkland vann Kongó í H-riðli, 32:22.